Fótbolti

Dómarinn sem gaf Man. United VAR-víti í París dæmir úrslitaleikinn í ár

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Thiago Silva hjá Paris Saint-Germain mótmælir hér eftir að Damir Skomina gaf Manchester United víti í uppbótatíma í París.
Thiago Silva hjá Paris Saint-Germain mótmælir hér eftir að Damir Skomina gaf Manchester United víti í uppbótatíma í París. Getty/Etsuo Hara
Slóveninn Damir Skomina mun dæma úrslitaleik Meistaradeildarinnar í ár en þar mætast Tottenham og Liverpool á heimavelli Atletico Madrid.

Skomina dæmdi meðal annars seinni leik Paris Saint Germain og Manchester United í sextán liða úrslitum keppninnar í mars.

Manchester United fékk þá víti í uppbótatíma eftir að Skomina skoðað atvikið aftur á myndbandi. Dómurinn var umdeildur en markið úr vítinu kom Manchester United áfram í átta liða úrslitin á fleirum mörkum skoruðu á útivelli.





Úrslitaleikurinn fer fram á Metropolitano vellinum í Madrid laugardaginn 1. júní.

Damir Skomina hefur dæmt áður einn úrslitaleik í Evrópukeppni en það var úrslitaleikur Evrópudeildarinnar á milli Manchester United og Ajax árið 2017. Hann var líka fjórði dómari á úrslitaleik Borussia Dortmund og Bayern München í Meistaradeildinni árið 2013.

Skomina hefur alls dæmt fjóra leiki í Meistaradeildinni á þessu tímabili þar á meðal leik Liverpool og Napoli á Anfield. Liverpool vann þar 1-0 sigur og tryggði sér sæti í sextán liða úrslitunum.





Aðstoðardómarar Skomina verða landar hans, Jure Praprotnik og Robert Vukan en fjórði dómarinn er Antonio Mateu Lahoz frá Spáni.

Danny Makkelie frá Hollandi stjórnar Varsjánni en fær þar aðstoð frá landa sínum Pol van Boekel og Þjóðverjunum Felix Zwayer og Mark Borsch.

Ítalski dómarinn Gianluca Rocchi dæmir úrslitaleik Chelsea og Arsenal í Evrópudeildinni sem fer fram í Bakú 29. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×