Fótbolti

Mourinho kallaði Messi guð

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi fagnar öðru marka sinna á móti Liverpool.
Lionel Messi fagnar öðru marka sinna á móti Liverpool. Getty/Chris Brunskill
Knattspyrnustjórinn Jose Mourinho hefur kynnst ýmislegu í fótboltanum og þjálfað marga af bestu leikmönnum heims. Mourinho hefur aftur á móti aldrei þjálfað Lionel Messi.

Mourinho er hins vegar í aðdáendaklúbbi Argentínumannsins eins og kannski flestir knattspyrnuáhugamenn heimsins. Mourinho var að vinna sem knattspyrnusérfræðingur þegar Messi gerði út um fyrri undanúrslitaviðureign Barcelona og Liverpool í fyrrakvöld.

Jose Mourinho hefur margoft staðið frammi fyrir því risastóra verkefni að finna leiðir til þess að reyna að halda aftur af Lionel Messi.

Samband þeirra hefur ekki verið allt of gott síðan að Mourinho sakaði Argentínumanninn um leikaraskap þegar þeir mættust fyrst í Meistaradeildinni. Það batnaði heldur ekki þau þrjú ár sem Jose Mourinho stýrði liði Real Madrid.



Það virðist vera allt gleymt í dag því Jose Mourinho sparaði ekki hrósið á Argentínumanninn þegar hann fjallaði um 3-0 sigur Barcelona á Liverpool. Mourinho var þar mættur í vinnuna hjá Russia Today en Manchester Evening News sagði frá.

„Liverpool sýndi hugrekki í nálgun sinni. Ég held að á síðustu tuttugu árum hafi ekki mörg lið verið meira með boltann en Barcelona í leik í Meistaradeildinni,“ sagði Jose Mourinho.

„Guð fótboltans breytti öllu í þessum leik. Barcelona er auðvitað með gott fótboltalið og frábæra leikmenn en þessi leikur er algjörlega ótrúlegur,“ sagði Mourinho.

„Liverpool átti miklu meira skilið en 3-0 tap en á lokakafla leiksins hefði þetta líka geta orðið 4-0 eða 5-0 því leikurinn var galopin og þeir réðu ekki við þá. Stóra spurningin er hvernig Barcelona lið munum við sjá þegar Messi ákveður að kveðja,“ sagði Mourinho.


Tengdar fréttir

Messi og Ronaldo eru núna jafnir með 600 mörk

Lionel Messi skoraði í gærkvöldi sitt sexhundruðasta mark fyrir Barcelona aðeins nokkrum dögum eftir að Cristiano Ronaldo skoraði sitt sexhundrasta mark fyrir sín félagslið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×