James Cole, lögmaður kínverska tæknirisans Huawei, sagði fyrirtækið alfarið saklaust þegar þrettán liða ákæra bandaríska dómsmálaráðuneytisins fór fyrir alríkisdómstól í New York í gær. Fyrirtækið er sakað um til að mynda bankasvindl og brot á viðskiptaþvingunum gegn Íran.
Þá er Meng Wanzhou, fjármálastjóri Huawei, ákærð í öðru máli fyrir sams konar brot en það er ekki komið fyrir dóm. Meng og Huawei eiga að hafa logið að HSBC og öðrum bönkum um tengsl Huawei við fyrirtækið Skycom Tech, sem sagt er leppfyrirtæki Huawei í Íran. Huawei hefur þó haldið því fram að Skycom sé hefðbundinn viðskiptafélagi.
Samkvæmt ákærunni á Huawei að hafa notað Skycom til að selja bandarískar vörur, tækni og þjónustu en það brýtur gegn þvingununum. Peningarnir eiga svo að hafa verið sendir til Huawei með því að ljúga að bönkum.
Bandarískar leyniþjónustu-, öryggis- og heimavarnastofnanir hafa sömuleiðis sakað Huawei um að stunda njósnir fyrir hönd kínverska ríkisins. Engin slík ákæra hefur verið gefin út og Huawei hafnar þessu sömuleiðis. Kenneth Fredriksen, forstjóri Huawei í Svíþjóð, sagði í viðtali við Fréttablaðið í febrúar að þær ásakanir væru órökstuddar.
Huawei neitaði alfarið sök fyrir dómi
