Fótbolti

Amazon var að taka upp heimildarmynd um Sergio Ramos á versta kvöldi ferilsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sergio Ramos.
Sergio Ramos. Getty/ David S. Bustamante
Sergio Ramos valdi líklega versta kvöldið á ferli hans hjá Real Madrid til að taka upp efni fyrir heimildarmyndina sem Amazon er að gera um hann.

Sergio Ramos var reyndar hvergi nærri vellinum því hann tók út leikbann eftir að hafa náð sér viljandi í gult spjald í lok fyrri leiksins.

Þetta gula spjald í fyrri leiknum í Amsterdam átti að vera svo sniðugt en reyndist svo verða algjört klúður hjá spænska miðverðinum.

Í stað þess að mæta „hreinn“ inn í átta liða úrslitin verður næsti leikur hans í Meistaradeildinni ekki fyrr en í fyrsta lagi í september 2019.





UEFA dæmdi hann í auka leikbann fyrir að reyna að fá gult spjald, Real Madrid vörnin saknaði hans mikið í gær og steinlá fyrir Ajax á heimavelli og Amazon fékk að mynda hann upplifa það þegar Real Madrid datt út í sextán liða úrslitum í fyrsta sinn síðan 2010.

Sergio Ramos veiddi sér gult spjald í lok fyrri leiksins þegar Real Madrid var að landa 2-1 útisigri og allt leit vel út.

Hann var enn sigurviss fyrir leikinn á Santiago Bernabéu í gær og mætti með alla fjölskylduna og vini í heiðursstúkuna og leyfði Amazon að mynda sig og sína í bak á fyrir.

Í stað þess að upplifa gleðistund og „öruggt“ sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar þá varð niðurstaðan vandræðalegt tap á heimavelli.

Þriggja ára sigurganga Evrópumeistaranna var á enda og Sergio Ramos þurfti að horfa upp á öll ósköpin með myndavélar Amazon í andlitinu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×