Elsta afbrigði bakteríunnar Yersina pestis sem fundist hefur fannst á dögunum í fimm þúsund ára gamalli gröf í Vestur-Gautlandi í Svíþjóð. Gerillinn olli farsótt sem dró vel yfir 50 milljónir manna til dauða um miðja 14. öld og kennd er við svartadauða.
Vísindamennirnir birtu niðurstöður sínar í vísindaritinu Cell í gær en í niðurstöðum þeirra kemur fram að með uppgötvun afbrigðisins hafi vísindamenn aldrei komist jafn nálægt því að uppgötva erfðafræðilegan uppruna plágunnar.
„Með þessari rannsókn hefur okkur tekist að ferðast aftur í tímann og rýna í það hvernig þessi sýkill, sem haft hefur svo djúpstæð áhrif á samfélag okkar, hefur þróast í aldanna rás,“ segir aðalhöfundur rannsóknarinnar, víðerfðamengjafræðingurinn Simon Rasmussen.
Vísindamennirnir fundu afbrigði bakteríunnar í erfðaefni sem þeir tóku úr líkamsleifum 20 ára gamallar konu sem lést fyrir um fimm þúsund árum. Afbrigðið hefur að geyma sömu eiginleika og farsóttin banvæna býr yfir í dag.
Rasmussen og meðhöfundar hans benda á að þetta ævaforna afbrigði renni stoðum undir þá kenningu að plágan hafi dreifst auðveldlega milli manna á nýsteinöld með tilkomu stærri byggða, viðskiptaleiða og tækniframfara.
„Plágan þróaðist úr tiltölulega meinlausri örveru. Við höfum séð sambærilega hluti gerast undanfarin ár og áratugi í tilfelli bólusóttar, malaríu, ebólu og Zika. Þetta þróunarferli er afar virkt,“ segir Rasmussen.
„Það er verðugt verkefni að reyna að skilja hvernig meinlaust fyrirbæri þróast yfir í eitthvað sem er svo bráðsmitandi.“
Elsta afbrigði plágunnar fannst í fimm þúsund ára gamalli gröf í Svíþjóð
Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
