Erlent

Neita að tjá sig um um­mæli Trumps um á­rás í Venesúela

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna.
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna. AP/Alex Brandon

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, sagði á dögunum að herafli sinn hefði gert árás á „stóra aðstöðu“ í Venesúela í síðustu viku. Hann sagði þó lítið annað og embættismenn í Bandaríkjunum hafa ekki viljað svara fyrirspurnum blaðamanna um hvað Trump hafi verið að vísa í.

Þá hafa yfirvöld í Venesúela ekkert sagt um einhvers konar árás þar í landi.

„Þeir eru með stóra verksmiðju, eða stóra aðstöðu, þaðan sem skipin koma,“ sagði Trump í viðtali sem birt var í útvarpi vestanhafs á föstudaginn.

„Fyrir tveimur dögum, rústuðum við þeim stað. Svo við veittum þeim þungt högg.“

Erfitt hefur reynst að fá frekari upplýsingar frá embættismönnum vestanhafs en einn sagði í samtali við New York Times að Trump hafi verið að vísa til fíkniefnainnviða en vildi ekki segja meira. Aðrir hafa lítið sem ekkert viljað segja.

Fyrirspurnum fjölmðla vestanhafs til Hvíta hússins, hersins, leyniþjónustunnar og annarra embætta hefur ekki verið svarað.

Ítrekaðar árásir á sjó

Undanfarnar vikur og mánuði hefur ríkisstjórn Trumps sent umtalsverðan herafla til Karíbahafsins og austanverðs Kyrrahafs. Trump hefur kallað eftir því berum orðum að Nicolas Maduro, forseta Venesúela, verði komið frá völdum en hefur ekki viljað segja hvort hann sé tilbúinn til að beita hervaldi til að velta honum úr sessi.

Þá hafa árásir verið gerðar á fjölda báta í Karíba- og Kyrrahafinu sem Bandaríkjamenn halda fram að hafi verið notaðir til að smygla fíkniefnum og nærri því hundrað manns eru taldir hafa fallið í þessum umdeildu árásum. Þær hafa verið kallaðar aftökur án dóms og laga.

Að minnsta kosti 105 hafa fallið í þessum árásum.

Einnig hafa Bandaríkjamenn stöðvað og lagt hald á olíuflutningaskip frá Venesúela.

Hefur bæði talað um leynilegar aðgerðir og loftárásir

Trump hefur opinberað að hann hafi heimilað leyniþjónustum Bandaríkjanna að fara í aðgerðir í Venesúela og gefið til kynna að loftárásir komi til greina. Í samtali við hermenn um borð í flugmóðurskipinu USS Gerald Ford á aðfangadagskvöld, lýsti Trump svæðinu kringum Venesúela sem „áhugaverðu“ og sagði að Bandaríkjamenn myndu brátt „fara á eftir landinu“.

Samkvæmt frétt CNN munu þessar samræður hafa átt sér stað um svipað leyti og hin meinta árás.

Ef marka má Trump, virðist sem að annaðhvort hafi loftárás verið gerð í Venesúela eða að sérsveitarmenn hafi gert þar einhvers konar árás. Hvort sem er, ef það er á annað borð, er það í fyrsta sinn svo vitað sé.


Tengdar fréttir

Kínverjar og Rússar lýsa yfir stuðningi við Venesúela

Stjórnvöld í Kína og Rússlandi hafa lýst yfir stuðningi við Venesúela, á sama tíma og Donald Trump Bandaríkjaforseti hefur hvatt til stjórnarskipta í landinu og stöðvað olíuflutningaskip og hótað því að halda olíunni eða selja.

Leggja hald á skip á alþjóðahafsvæði undan ströndum Venesúela

Bandaríkjamenn hafa stöðvað og lagt hald á skip á alþjóðahafsvæði undan strönd Venesúela en þetta gerist aðeins nokkrum dögum eftir að Donald Trump Bandaríkjaforseti setti hafnbann á öll olíuflutningaskip til og frá Venesúela sem sæta refsiaðgerðum.

Meina fólki frá fjölda ríkja að ferðast til Bandaríkjanna

Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, fjölgaði í gær verulega þeim sem mega ekki ferðast til Bandaríkjanna, eða sæta takmörkunum á ferðalögum þangað. Hann bætti tuttugu ríkjum við á lista slíkra ríkja og eru þau nú orðin 39 en ríkisstjórn hans leggur mikið púður í það að draga úr fjölda innflytjenda í Bandaríkjunum, hvort sem þeir dvelja þar með ólöglegum hætti eða ekki.

Stefna á að taka fleiri skip frá Venesúela

Yfirvöld í Bandaríkjunum eru sögð undirbúa að stöðva og taka yfir fleiri olíuflutningaskip sem notuð eru til að flytja olíu frá Venesúela, finnist þau á hafi úti. Fyrr í vikunni tóku Bandaríkjamenn stjórn á olíuflutningaskipi undan ströndum Venesúela og var það í fyrsta sinn sem það hefur verið gert en Bandaríkin hafa beitt Venesúela refsiaðgerðum frá 2019.

Sagður tilbúinn að yfirgefa Venesúela með friðhelgi

Nicolas Maduro, forseti Venesúela, sagði í samtali við Donald Trump, kollega sinn í Bandaríkjunum, í síðasta mánuði að hann væri tilbúinn til að yfirgefa ríki sitt. Hann og fjölskylda hans þyrftu þó að fá almenna friðhelgi frá lögsókn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×