Skoðun

Af þeim Slash og sléttbak

Jóhannes Þ. Skúlason skrifar
Við Íslendingar berum gæfu til að vera vinmörg þjóð. Í þessari viku hafa bæði Slash og sjaldgæfur sléttbakur bæst í hóp Íslandsvina. Og þó annar þeirra sé fingrafimari en hinn eiga þeir sameiginlegt að bætast í hóp milljóna Íslandsvina sem hafa sótt landið okkar heim, flestir til að kynnast náttúru og menningu þess. Og kannanir sýna að langflestir þeirra eignast Ísland að vini eftir ánægjulega dvöl.

Íslendingar eru nefnilega að gera frábæra hluti í ferðaþjónustu um allt land þar sem gæði og fagmennska hafa aukist til muna. Gæðagistiaðstaða og margvísleg afþreying fyrir ævintýragjarna hefur sprottið upp um allt land og hvarvetna má nú finna góða veitingastaði til að njóta kvöldsins. Á Höfn í Hornafirði má til dæmis dvelja í heila viku og borða frábæran mat á nýjum veitingastað á hverju kvöldi.

Það gleymist stundum í umræðunni um fjölda ferðamanna, gengið og allt hitt hvað ferðaþjónustan hefur breytt miklu fyrir okkur heimafólkið um leið og fyrir Íslandsvinina.

Hagur ferðaþjónustunnar og okkar sem byggjum samfélagið fer nefnilega saman á margvíslegan máta. Hún býr til fjölbreytileg atvinnutækifæri um allt land, þrýstir á innviðauppbyggingu og eykur tækifæri okkar til að njóta þess sem landið okkar hefur upp á að bjóða.

Milljónir Íslandsvina hafa hjálpað okkur að byggja upp alls konar sniðugt og skemmtilegt á skömmum tíma. Framboð á menningartengdri ferðaþjónustu eins og t.d. stórtónleikum rokkgoðanna Axl og Slash og annarri lifandi tónlist hefur stóraukist og menningarhátíðir á landsbyggðinni hafa blómstrað. Ævintýraferðir niður ár, ofan í eldfjöll og upp á jökla, fjöll og firnindi eru nú í boði fyrir alla sem vilja og einhverjir þeirra 350 þúsund ferðamanna sem leggja á hafið með 20 hvalaskoðunarfyrirtækjum með 300 starfsmönnum hafa mögulega séð Íslandssléttbakinn góða á svamli.

Öllum þessum nýju Íslandsvinum fylgja auðvitað áskoranir sem takast verður á við af skynsemi og ábyrgð. En þessi pistill fjallar ekki um þær, því stundum þarf að minna okkur öll á að ferðaþjónustan snýst ekki bara um eitthvert vesen.

Höfundur er framkvæmdastjóri SAF




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×