Samkeppniseftirlitið hefur um þessar mundir til rannsóknar samkeppnisleg áhrif nokkurra samruna sem eru í farvatninu hér á landi á vettvangi verslunar með eldsneyti og dagvöru.
Má þar nefna fyrirhuguð kaup Samkaupa hf. á 14 verslunum Basko verslana ehf. sem meðal annars reka verslanir 10-11, Iceland og Háskólabúðina. Fyrst var tilkynnt um fyrirhuguð kaup Haga hf. á Olís í fyrra en samrunatilkynningin var afturkölluð í mars á þessu ári. Síðan ný tilkynning barst um samrunann síðar í sama mánuði og hafa Hagar lagt til að félagið selji frá sér tilteknar verslanir Bónuss auk ákveðinna sölustöðva Olís og ÓB, í framhaldi af athugasemdum Samkeppniseftirlitsins.
Loks má nefna kaup N1 hf. á Festi hf, sem á og rekur meðal annars Krónuna, Elko og Nóatún. N1 hefur lagt til að félagið selji frá sér tilteknar afgreiðslustöðvar og vörumerki Dælunnar, til að eyða samkeppnishindrunum.
Ásta Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs, segir þessa þróun ekki koma á óvart. „Ég myndi segja að samþjöppun þarf náttúrlega að eiga sér stað til þess að hér sé hægt að bjóða vörur og þjónustu sem íslenskir neytendur vilja kaupa. Því annars, það þarf enga sérfræðinga til að segja okkur það, þá leitum við bara eitthvað annað og það er orðið auðveldara með tækni og þróun sem hefur átt sér stað,“ segir Ásta.
Í ljósi þess veruleika sem blasi við sé nauðsynlegt að ráðast í breytingar á samkeppnislöggjöfinni, sem er löngu úrelt að sögn Ástu. Til að mynda séu veltumörk fyrirtækja, sem eru skyldug til að tilkynna samruna til samkeppniseftirlitsins, mjög lág og hafi ekki breyst síðan 2008.
„Það eru ekki nógu skýrar reglur og í raun og veru fer það bara eftir hverju máli fyrir sig hvernig þau fara og oft vita fyrirtæki ekki fyrr en í málslok hvernig þau í raun og veru hefðu átt að haga sér,“ segir Ásta.