Umfjöllum og viðtöl: Haukar - Skallagrímur 77-63 | Haukar sópuðu Sköllunum í sumarfrí og fara í úrslit

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
vísir
Haukar eru komnir í úrslit Domino’s deildar kvenna eftir öruggan sigur á Skallagrími í þriðja leik liðanna í undanúrslitunum í Schenkerhöllinni á Ásvöllum í kvöld.

Gestirnir úr Borgarnesi byrjuðu leikinn mun betur og voru komnar í 10 stiga forsytu þegar skammt var liðið af fyrsta leikhluta. Þá tók Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, leikhlé og náði að kveikja í sínum konum. Deildarmeistararnir komu til baka og það var aðeins flautuþristi Carmen Tyson-Thomas að þakka að ekki var allt jafnt eftir fyrsta leikhluta.

Annar leikhluti var mjög jafn. Skallagrímur náði aftur smá forystu en Haukarnir svöruðu og náðu einnig að komast yfir. Leikurinn einkenndist af mikilli hörku og baráttu og var lítið skorað í öðrum leikhluta. Þegar liðin gengu til búningsherbergja var hnífjafnt, 29-29.

Áfram hélt leikurinn á svipuðum nótum í seinni hálfleik. Mikil barátta og harka og lítið sem skildi liðin að. Haukar sigu hægt og rólega fram úr með frábærri vörn og á ögurstundu voru skotin ekki að detta hjá Skallagrímskonum á meðan Haukar héldu áfram sínu spili.

Leiknum lauk með 77-63 sigri Hauka og Borgnesingar farnir í sumarfrí.

Afhverju unnu Haukar?

Haukar eru deildarmeistarar og eru bara einfaldlega með betra lið. Þrátt fyrir að Skallagrímur hafi byrjað betur og komist í forystu má í raun skrifa það á sofandahátt Hauka frekar en frábæran leik Skallagríms. Gestirnir voru að spila þokkalega vel, það verður ekki tekið af þeim, en þær hittu fyrir ofjarla sína í þessari seríu, svo einfalt er það.

Hverjar stóðu upp úr?

Whitney Frazier bar herðar og höfuð yfir aðra leikmenn á vellinum í kvöld. Hún var frábær sóknarlega og skilaði sínu í vörninni. Helena Sverrisdóttir átti einnig stórgóðan leik að vanda. Aðrir leikmenn sem oft hafa verið áberandi í liði Hauka létu ekki eins mikið fyrir sér fara í dag.

Hjá Skallagrími var það helst Sigrún Sjöfn Ámundadóttir sem stóð upp úr ásamt Jóhönnu Björk Sveinsdóttur. Carmen Tyson-Thomas var stigahæst með 22 stig en það verður bara að teljast undir pari hjá leikmanni sem er oftast með í kringum 30-35 stig.

Hvað gekk illa?

Skotnýtingin var ekkert til að hrópa húrra yfir, og þá sérstaklega hjá Skallagrím. Þegar leið á leikinn fór fátt að ganga upp hjá þeim og þær gerðu sjálfum sér enga greiða með lélegum skotum.

Hvað gerist næst?

Skallagrímur er farinn í sumarfrí en Haukar fara í úrslitaeinvígið. Þar mæta þær annað hvort Val eða Keflavík.

Ingvar: Vorum langt frá því að spila vel

„Hrikalega sáttur að klára þetta í þremur leikjum,“ sagði Ingvar Þór Guðjónsson, þjálfari Hauka, eftir leikinn. „Lokatölurnar gefa enga mynd af þessum leik hérna í dag enda hefði verið óeðlilegt að labba í burtu með þægilegan sigur í leik þar sem við töpum 24 boltum og þær taka 19 sóknarfráköst.“

„Erfiður leikur sem við virkilega þurftum að hafa fyrir að sigra.“

„Við vorum mjög slakar í byrjun. Svo tók ég leikhlé og vakti þær aðeins. Við vorum svosem ekki lengi að koma til baka og jafna leikinn og komast yfir. Missum þetta svo niður í jafntefli í hálfleik. Lengi framan af í seinni hálfleik var þetta bara mjög jafnt.“

Það fer ekki framhjá neinum að Haukar eru með gríðarlega sterkt lið, með eina bestu, ef ekki allra bestu, körfuboltakonu íslenskrar körfuboltasögu innanborðs og mikið af ungum og efnilegum leikmönnum.

„Það eru heilmikil gæði í okkar liði. Helena var lengi í gang, hún var ekki góð í fyrri hálfleik og Whitney var virkilega flott.“

„Það sem að vinnur leikinn það er í raun vörnin á Carmen í seinni hálfleik. Ég held hún skori þrjú eða fimm stig í öllum seinni hálfeik og þá skoruðu þær ekki mikið svo við náðum að loka á það og það hjálpaði okkur að byggja upp forskotið.“

„Við vorum langt í frá að spila vel en það er karakter að klára þetta,“ sagði Ingvar.

Hann vildi ekki segja til um óska mótherja í úrslitunum, vonaðist bara eftir því að „betra liðið vinni, þá standa eftir tvö bestu liðin í úrslitunum.“

Ari: Getum gert miklu betur

„Mjög svekktur. Veit að liðið mitt getur spilað betur og þess vegna er maður svekktur,“ sagði Ari Gunnarsson, þjáflari Skallagríms, eftir leikinn.

„Mér fannst við getað gert miklu betur.Kannski eru þær bara ekki í nógu góðu formi, ég veit það ekki, þær héldu ekki út þessari vörn sem við byrjuðum á. Ef formið er ekki betra þá er það kannski bara mér að kenna.“

Hann vildi ekki viðurkenna að liðið hafi mætt ofjörlum sínum í kvöld, en sagði Hauka þó vera með mjög sterkt lið.

„Haukar eru besta liðið í deildinni, þeir eru deildarmeistarar og með besta leikmanninn í deildinni og með góðan Kana og svoleiðis lið eru oft mjög sterk.“

„Þetta var mjög kaflaskipt af okkar hálfu, við náum að halda þeim í 29 stigum í fyrri hálfleik en svo fáum við á okkur þennan helling í seinni. Við vorum inni í leiknum þannig en svo skilja leiðir í fjórða og þá vantar kannski herslumuninn.“

Samningur Ara við Skallagrím var aðeins út þetta tímabil og vissi hann ekki hvað tæki við hjá sér núna.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira