Skoðun

Breytni eftir Kristi

Guðmundur Brynjólfsson skrifar
De Imitatione Christi er ágæt bók sem kennir manni að haga sér. Aðferðin er sú að maður eigi að reyna að haga sér sem Kristur. Það er mikið verk. Höfundur bókar er Thomas A. Kempis en því nafni svipar til nafns argentínska fótboltamannsins Mario Kempes – mér er ókunnugt um skyldleika. Ég hef stundum (ætlaði að skrifa „Ég hef alltaf“ sem er bláköld lygi, svo ég hætti við það) reynt að breyta sem Kristur. Það gerir manni gott.

Einu sinni sem oftar kom ég sjálfum mér á sjúkrahús. Vaknaði þar upp og vissi sem var; sjúkdóm og lækningu. Batnaði þó ekki til frambúðar. Þarna lá ég í bælinu og drakk Gatorade við ævilöngum þorsta. Leit ég þá í næsta rúm og sá þar sovétlærðan leiklistarmeistara. Hann drakk og Gatorade við svipuðum þorsta. Okkur varð strax vel til vina enda andans menn og báðir gáfaðri en hinn.

En eitt var þarna helvíti. Þeir bönnuðu honum að reykja, meistaranum, en límdu á hann plástra. Hann vildi samt reykja. Þetta var straff sem tók ekki nokkurn nótís af þjáningum manns sem vildi fá sitt tóbak þar til yfir lyki. Reyndar var hann ekki neitt að deyja – en hann setti það þannig upp. Og þá telur það. En það voru fleiri snurður á; þessi gúrú og frumkvöðull í íslenskri nútímaleiklist, átti ekkert tóbak.

Ég djákninn, afréð að breyta líkt og Kristur, braut því þau boð sem ég var þarna seldur undir; þá reglu að mér væri óheimilt að yfirgefa sjúkrahúslóðina. Ég fór og keypti tvo pakka af Royal og gaf gamla leikstjóranum.

Hann ljómaði. Ég slapp – því ég breytti rétt. Af þessu má læra að það borgar sig ekki að reykja Royal og – De Imitatione Christi er fínasta bók að fara eftir í nauðum. Og jafnvel oftar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×