Körfubolti

Sólrún í Curry-ham og skólametið er nú hennar

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sólrún Inga Gísladóttir.
Sólrún Inga Gísladóttir. Vísir/Vilhelm
Hafnfirska körfuboltakonan Sólrún Inga Gísladóttir var heldur betur sjóðandi heit í leik með Coastal Georgia á móti Keiser University í bandaríska háskólakörfuboltanum.

Sólrún skoraði níu þriggja stiga körfur í leiknum og alls 27 stig. Hún bætti þar með skólametið í þristum sem hún hafði jafnað með átta þrista leik í byrjun desember.

Sólraun setti ekki aðeins skólamet heldur hefur enginn leikmaður í The Sun Conference náð að skora níu þrista í einum leik og hún er aðeins sjöundi leikmaðurinn sem nær því í allri NAIA 2. deildinni.

Sólrún hitti úr 9 af 15 þriggja stiga skotum sínum í leiknum en hún tók ekki eitt einasta skot fyrir innan þriggja stiga línuna. Hún bætti skólametið með því að skella niður níundu þriggja stiga körfunni þegar 2:21 mínútur voru eftir af leiknum.

Coastal Georgia vann leikinn 95-70 og var íslenska stórskyttan stigahæst í sínu liði. Sólrún var með níu þrista en allir hinir leikmennirnir á vellinum voru með 8 samtals. Liðsfélagar hennar skoruðu fimm og mótherjarnir aðeins þrjá.

Sólrún var einnig með fjögur fráköst, tvo stolna bolta og eina stoðsendingu á þeim rúmu 33 mínútum sem hún spilaði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×