Körfubolti

Curry bauð uppá skotsýningu gegn Clippers

Magnús Ellert Bjarnason skrifar
Curry og Durant fylgdust glaðir með í fjórða leikhluta.
Curry og Durant fylgdust glaðir með í fjórða leikhluta. Vísir // Getty
Meistarar Golden State Warriors léku á alls oddi í nótt og unnu sannfærandi útisigur á slöku liði Los Angeles Clippers, 121-105.

Var þetta tíundi útisigur Warriors í röð, sem hafa unnið 17 af síðustu 19 leikjum sínum.

Kevin Durant kom ekki við sögu vegna meiðsla en það kom ekki að sök fyrir Warriors. Steph Curry sá til þess en hann bauð áhorfendum í Staples Center höllinni í Los Angeles uppá skotsýningu; skoraði 45 stig, þar af 17 stig í fyrsta leikhluta og hitti úr 8 af 16 þriggja stiga skotum sínum.

 

Curry þurfti ekki einu sinni að spila í fjórða leikhluta til að afreka þetta en forysta Warriors var orðin það mikil eftir þriðja leikhluta að Curry tók sér þá sæti á bekk liðsins og hvíldi lúin bein.

Besti leikmaður Clippers og stærsta stjarna þeirra, Blake Griffin, fékk heilahristing í fyrsta leikhluta eftir að hann datt harkalega á olnboga JaVale McGee í liði Warriors og kom ekki meira við sögu.

Boston Celtics unnu nauman sigur á heimavelli gegn Brooklyn Nets, 87-85. Kyrie Irving var stigahæstur í liði Celtics með 21 stig en nýliðinn Jayson Tatum, sem hefur verið frábær í vetur, tryggði þeim grænklæddu sigurinn með mikilvægum körfum á lokamínútum loksins.

 



Var þetta sjötti sigur Celtics í röð, sem halda næst til London þar sem þeir mæta Philadelphia 76 ers.

Öll úrslit næturinnar:

L.A. Clippers - Golden State Warriors: 105-121

Boston Celtics - Brooklyn Nets: 87-85

Orlando Magic - Cleveland Cavaliers: 127-131

Detroit Pistons - Houston Rockets: 108-101

Indiana Pacers - Chicago Bulls: 125-86

Washington Wizards - Milwaukee Bucks: 103-110

Minnesota Timbervolwes – New Orleans Pelicans: 116-98

Sacramento Kings – Denver Nuggets:106-98

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×