Skoðun

Skilvirk afgreiðsla á umsóknum hælisleitenda

Ólafur Ísleifsson skrifar
Fulltrúar Flokks fólksins eru tíðum spurðir um afstöðu til málefna hælisleitenda.

Svarið við því er einfalt. Við viljum taka upp 48 stunda regluna sem Norðmenn hafa innleitt. Með þessu viljum við skilvirka afgreiðslu umsókna um leið og tekið er fyrir sístreymi úr ríkissjóði án fjárheimilda eins og nýleg dæmi eru um. Slík meðferð almannafjár er óábyrg og óboðleg af hálfu ábyrgra stjórnvalda.Lausatök í ríkisfjármálum hafa skaðleg áhrif í efnahagslífinu með alvarlegum afleiðingum fyrir fólk og fyrirtæki eins og nýleg dæmi staðfesta.

Norðmenn eru kunnir á veraldarvísu fyrir framlög sín til þróunarríkja og skara fram úr öðrum þjóðum þegar fjárframlög í þessu efni eru borin saman við umfang efnahagslífsins. Norðmenn veita friðarverðlaun Nóbels og hafa leitast við að koma fram sem sáttasemjarar á alþjóðlegum vettvangi. Við Íslendingar þekkjum til framgöngu þeirra í því efni úr þorskastríðum og þökkum þeirra framlag.

Með því að taka upp 48 stunda reglu að dæmi Norðmanna á forsendum skilvirkni og ábyrgrar stjórnar ríkisfjármála erum við í góðum félagsskap með frændum okkar og vinum í Noregi.  

Stefna Flokks fólksins í málefnum hælisleitenda er skýr. Hún styðst við bestu fyrirmynd sem fáanleg er.

Höfundur skipar 1. sæti framboðslista Flokks fólksins í Reykjavík norður í komandi Alþingiskosningum.




Skoðun

Sjá meira


×