Körfubolti

Jón Arnór: Léku sér að okkur eins og köttur að mús

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Jón Arnór Stefánsson var atkvæðamestur í íslenska liðinu gegn Frökkum í dag. Hann skoraði 23 stig og tók sjö fráköst.

„Ég kom svo sem með sama hugarfar en langaði að bæta upp fyrir lélega tvo fyrstu leiki. Svo duttu skotin fyrir mig í dag miðað við Pólverjaleikinn. Þetta var erfitt. Við vorum að spila á móti betra liði, einu besta liðinu í heiminum í dag. Við mættum ofjarli okkar og áttum ekki möguleika í leiknum,“ sagði Jón Arnór í samtali við Arnar Björnsson eftir leikinn.

Hann segir að munurinn á íslenska liðinu og því franska sé mjög mikill.

„Það er mikil reynsla fyrir okkur að takast á við svona stór verkefni sem við höfum verið að upplifa á síðustu árum í körfuboltanum. Við erum að fá að spila á móti þeim bestu og höfum sagt að við ætlum að njóta þess og læra af því,“ sagði Jón Arnór.

„Við ætluðum að gera það í dag og allt í þessa leiki og sjá hvað kæmi út úr því. Þeir eru mörgum styrleikaflokkum fyrir ofan okkur og raunveruleikinn er bara þannig að þeir eru klárlega betri en við, 30 stigum betri en við á venjulegum degi. Við börðumst eins og við gátum en munurinn fullstór í lokin. Það er bara munurinn á þessum liðum.“

Ísland spilaði vel í fyrri hálfleik og munurinn að honum loknum var aðeins sjö stig, 42-27.  

„Það var mikil stemning í tvo fjórðunga en það er bara ekki nóg. Þeir hafa miklu fleiri vopn en við og þar kom munurinn í ljós. Stemningin þarf að vera mikil og jákvæð til þess að við eigum möguleika á að vera í jöfnum leik í lokin. Þeir léku sér að okkur eins og köttur að mús. Þannig er það bara og við vorum ekki með nógu mikinn kraft til eiga möguleika. Þeir eru bara betri en við lögum okkur fram, vorum harðir og ætluðum okkur að gera betur en í gær,“ sagði Jón Arnór.

„Við vorum leiðir og sárir eftir leikinn í gær og okkur fannst við hafa brugðist okkur sjálfum og auðvitað áhorfendum hér og heima. Við ætluðum að gera betur í dag, erum að leggja okkur fram en erum ekki eins góðir og Frakkarnir. Þið getið kallað okkur lélega en við leggjum okkur alltaf fram og berjast alltaf þar til yfir lýkur“.

Íslenska liðið fær núna kærkominn hvíldardag fyrir síðustu tvo leikina á mótinu.

„Þetta er ekkert búið. Eftir leikinn í gær vorum við leiðir og sárir. Logi reynslubolti Gunnarsson stormaði inn í klefa og sagði: strákar, það eru þrír leikir eftir. Nú eru tveir leikir eftir. Við spiluðum betur í dag, lögðum okkur alla fram og spiluðum vel í heilan hálfleik móti einu besta liði í heimi. Við ætlum bara að bæta okkar leik og verða betri eftir því sem líður á mótið og ætlum að reyna að vinna þessa tvo leiki sem eftir eru. Ég held bara að við séum í gær og allir á sömu blaðsíðu hvað það varðar“, sagði Jón Arnór að lokum.


Tengdar fréttir

Brynjar: Geri það sem ég er bestur í

Brynjar Þór Björnsson, skytta íslenska landsliðsins í körfubolta, segir að liðið verði að ná að spila meira en bara tuttugu mínútur góðar til að eiga séns í eins gott lið og Frakkar eru.

KKÍ fær þrettán milljónir í viðbótarstyrk

Körfuknattleikssamband Íslands ásamt Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands héldu í morgun blaðamannafund í keppnishöllinni í Helsinki þar sem íslenska körfuboltalandsliðið mætir því franska á eftir á Evrópumótinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×