Viðskipti innlent

Hlutur ORK metinn á rúma sjö milljarða

Kristinn Ingi Jónsson skrifar
Magma Energy verður áfram stærsti hluthafi HS Orku, með 53,9% hlut.
Magma Energy verður áfram stærsti hluthafi HS Orku, með 53,9% hlut. vísir/andri marinó
Virði 12,7 prósenta hlutarins sem fagfjárfestasjóðurinn ORK mun eignast í HS Orku er rúmir sjö milljarðar króna samkvæmt verðmati á félaginu sem gert var í lok síðasta árs. Virði eignarhlutar íslenskra lífeyrissjóða í félaginu gæti þannig samtals orðið um 25,3 milljarðar króna.

Kanadíska orkufélagið Alterra greindi frá því í síðustu viku að dótturfélag sitt, Magma Energy, ætti í viðræðum við íslenska fagfjárfestasjóðinn ORK, sem er að mestu leyti í eigu lífeyrissjóða, um uppgjör á skuldabréfi sem Magma gaf út við kaup á hlut sínum í HS Orku. Af tilkynningu Alterra má ráða að Magma hyggst ekki endurfjármagna lánið, heldur er gert ráð fyrir að ORK gangi að veði þess og yfirtaki þannig 12,7 prósenta hlut í HS Orku af Magma. Hlutur Magma mun því minnka úr 66,6 prósentum í 53,9 prósent, en fyrir eiga fjórtán lífeyrissjóðir 33,4 prósenta hlut í HS Orku í gegnum félagið Jarðvarmi.

Íslenskir lífeyrissjóðir munu því samtals eiga 46,1 prósent hlut í orkufélaginu að virði rúmlega 25 milljarða króna. Eignarhlutur Jarðvarma var metinn á 18,3 milljarða króna í bókum félagsins í lok árs 2016, en samkvæmt því er markaðsvirði HS Orku 54,8 milljarðar króna. Hefur það hækkað um 31 prósent á undanförnum fimm árum.

Skuldabréfið, sem var á lokagjalddaga í gær, 16. júlí, var metið á tæpa 7,4 milljarða króna í lok júnímánaðar. ORK keypti bréfið af Reykjanesbæ í ágúst 2012 en þá nam kaupverðið tæpum 6,3 milljörðum króna.

Eins og Markaðurinn hefur greint frá var þrjátíu prósenta hlutur HS Orku í Bláa lóninu settur í söluferli um miðjan maí. Bárust tilboð í hlutinn frá nokkrum erlendum fjárfestingarsjóðum, en þau gefa til kynna að HS Orka geti fengið í kringum tíu milljarða króna fyrir söluna. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×