Viðskipti innlent

Verð­bólga ekki meiri síðan í janúar

Árni Sæberg skrifar
Reiknuð húsaleiga hækkaði talsvert milli mánaða.
Reiknuð húsaleiga hækkaði talsvert milli mánaða. Vísir/Vilhelm

Verðbólga mælist nú 4,3 prósent, samanborið við 4,1 prósent í september. Verðbólga hefur ekki verið meiri síðan í janúar. Áhrif af gjaldþroti Play koma að litlu leyti inn í útreikning neysluverðs í mánuðinum.

Í tilkynningu á vef Hagstofunnar segir að vísitala neysluverðs, miðuð við verðlag í október 2025, sé 661,4 stig og hækki um 0,47 prósent frá fyrri mánuði. Vísitala neysluverðs án húsnæðis sé 527,7 stig og hækki um 0,36 prósent frá september 2025.

Kostnaður vegna búsetu í eigin húsnæði, reiknuð húsaleiga, hafi hækkaði um 0,9 prósent og haft 0,19 prósentustiga áhrif á verðbólgu til hækkunar.

„Í ljósi umræðu um áhrif gjaldþrots eins flugfélags á verð hjá öðrum flugfélögum er rétt að benda á að flugverð í vísitölu neysluverðs er mælt með tveggja, fjögura og átta vikna fyrirvara og mælingarnar notaðar til útreikninga í þeim mánuði sem ferðin á sér stað. Þetta þýðir að flugverð sem notað var til útreikninga í október var mælt í ágúst, september og október þannig að einungis hluti mælinganna fór fram eftir að fréttir bárust af gjaldþroti Play,“ segir í tilkynningunni.

Síðastliðna tólf mánuði hafi vísitala neysluverðs hækkað um 4,3 prósent og vísitala neysluverðs án húsnæðis um 3,3 prósent.

Vísitala neysluverðs samkvæmt útreikningi í október 2025, sem sé 661,4 stig, gildi til verðtryggingar í desember 2025.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands birtir næstu yfirlýsingu sína um stýrivexti þann 19. nóvember næstkomandi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×