Viðskipti innlent

Segja þing­mann draga upp skakka mynd af stöðu ný­sköpunar

Kjartan Kjartansson skrifar
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, með Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra samtakanna, sér við hlið á nefndarfundi Alþingis. Myndin er úr safni.
Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs Samtaka iðnaðarins, með Sigurð Hannesson, framkvæmdastjóra samtakanna, sér við hlið á nefndarfundi Alþingis. Myndin er úr safni. Vísir

Sú mynd sem þingmaður Viðreisnar dregur upp af stöðu nýsköpunar á Íslandi er skökk, að mati sviðsstjóra hjá Samtökum iðnaðarins. Þingmaður heldur því fram að tækni- og nýsköpunarfyrirtæki séu enn minna sýnileg á íslenskum markaði en í Evrópu.

Pawel Bartoszek, þingmaður Viðreisnar, bar saman fjölda tækni- og nýsköpunarfyrirtækja á lista verðmætustu félaganna í íslensku kauphöllinni við hlutfallið í evrópskum kauphöllum í grein sem birtist á Vísi í gær.

Lágt hlutfall þeirra í Evrópu var á meðal ábendinga Mario Draghi, fyrrverandi seðlabankastjóra Evrópu, í skýrslu um hnignandi samkeppnishæfni Evrópu í samanburði við Bandaríkin og Kína í fyrra.

„Sé litið til íslensku kauphallarinnar þá eru það fjármálafyrirtæki, smásalar, sjávarútvegsfyrirtæki og fasteignafélög sem tróna á toppnum. Allt er þetta er starfsemi sem hefur verið til í áratugi. Tæknifyrirtækin eru jafnvel minna sýnileg en í ESB,“ sagði Pawel í greininni.

Alvotech og Marel á meðal stórlaxanna

Við þetta gerir Sigríður Mogensen, sviðsstjóri iðnaðar- og hugverkasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, verulegar athugasemdir. Mörg verðmætustu fyrirtækjann í íslensku kauphöllinni séu þvert á móti tækni- og nýsköpunarfyrirtæki, eins og JBT Marel og Alvotech sem hafi verið byggð frá grunni á Íslandi.

Til viðbótar megi nefna Emblu Medical, Kerecis og CCP. Virði Kereces við sölu þess hafi verið meira en markaðsvirði flestra þeirra félaga sem Pawel nefndi í grein sinni þó að félagið hafi ekki verið skráð á markað hér.

Pawel nefndi bæði Emblu Medical og Alvotech í grein sinni en undanskildi þau frá lista sínum þar sem þau eru einnig skráð í kauphöllum annarra landa.

Geri lítið úr fyrirtækjum sem hafa verið byggð upp

Sigríður segir í tölvupósti til Vísis að íslenskt atvinnulíf eigi vissulega undir högg að sækja, meðal annars vegna íþyngjandi regluverk, hás raforkukostnaðar og stöðu alþjóðaviðskipta.

Staðan sem Pawel dragi upp af nýsköpun hér sé þrátt fyrir það ekki rétt enda sé fjárfesting í rannsóknum og þróun umtalsvert meiri hlutfallslega á Íslandi en að meðaltali í ríkjum Evrópusambandsins.

„Það er umhugsunarefni að þingmaður dragi upp skakka mynd af stöðu nýsköpunar á Íslandi en að okkar mati gerir þetta lítið úr þeim stórkostlegu nýsköpunar-, tækni- og hugverkafyrirtækjum sem hafa byggst upp hér á landi,“ segir hún.


Tengdar fréttir

Hætta steðjar að lífsgæðum Evrópubúa

Efnahagsleg hnignun Evrópu þýðir að lífsgæði íbúa álfunnar skerðast ef ekkert verður að gert. Marshall-aðstoðin eftir seinna stríð bliknar í samanburði við þá fjárfestingu sem Evrópa þarf að ráðast í samkvæmt nýrri skýrslu fyrrverandi seðlabankastjóra Evrópu.

Skaut sam­stundis niður til­lögur um efna­hags­lega björgun Evrópu

Fjármálaráðherra Þýskalands hafnaði metnaðarfullum tillögum fyrrverandi seðlabankastjóra Evrópu um efnahagslega endurreisn álfunnar aðeins örfáum klukkustundum eftir að þær voru lagðar fram í gær. Nær útilokað virðist að þær nái fram að ganga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×