Körfubolti

Cleveland með magnaðan árangur síðan James kom tilbaka

Dagur Sveinn Dagbjartsson skrifar
DeMar DeRozan og LeBron James eigast hér við í leik liðanna á föstudaginn.
DeMar DeRozan og LeBron James eigast hér við í leik liðanna á föstudaginn. vísir/getty
Það er óhætt að segja að lið Cleveland Cavaliers hafi verið að spila eins og lið sem valdið hefur að undanförnu. Cleveland hefur nú spilað sjö leiki í úrslitakeppni NBA og unnið þá alla.

Liðið sópaði Indiana Pacers út úr úrslitakeppninni, 4-0, og er á góðri leik með að gera það sama gegn Toronto Raptors. Cleveland og Toronto mætast í fjórða leik liðanna í kvöld og með sigri getur Cleveland bókað sæti sitt í úrslitum Austurdeildarinnar.

En þrátt fyrir fjóra sigra á Indiana í fyrstu umferð úrslitakeppninnar, þá voru það allt saman jafnir leikir. Cleveland vann einvígið einungis með 16 stiga mun samtals úr öllum leikjunum.

LeBron James skoraði 35 stig í síðasta leik Cleveland og Toronto og Cleveland hefur nú unnið 31 leik í úrslitakeppni og aðeins tapað 4 síðan James kom aftur til Cleveland, fyrir tímabilið 2014-2015.

Toronto lék síðasta leik án Kyle Lowry, sem glímir við ökklameiðsli. Og ekki hjálpaði það Toronto mikið að vera með afleita nýtingu í skotum sínum. Liðið hitti til að mynda aðeins úr tveimur af átján þriggja stiga skotum sínum.

Það þarf því eitthvað mikið að gerast í kvöld ef Toronto ætlar að ná að knýja fram sigur. Leikur Toronto og Cleveland verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport 2 og hefst útsending kl. 19:30.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×