Körfubolti

Formaður dómaranefndar: Aldrei verið rætt um Ara á Facebook

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ari Gunnarsson, þjálfari kvennaliðs Vals, fór mikinn í viðtölum í gær eftir svekkjandi tap síns liðs gegn Snæfelli í gær.

Þar kvartaði Ari sáran undan dómurum leiksins og sagðist ekki fá sömu meðferð og aðrir þjálfarar í deildinni.

„Ég set út á dóma í upphafi leiks og fæ strax aðvörun um að haga mér. Svo sé ég Leif taka utan um Inga á leiðinni inn í klefa í hálfleik þegar hann er að kvarta. Ég vill bara fá sömu meðferð og aðrir, ég veit alveg hvað þeir eru að tala um í spjallinu sínu á Facebook. Ég fæ ekki það sama og aðrir þjálfarar,“ sagði Ari meðal annars í viðtali við Vísi í gær.



Harðar ásakanir hjá Ara sem gætu dregið dilk á eftir sér.

„Ég veit ekki hvað maður á að segja. Ari er ósáttur. Ég hef ekki séð leikinn og veit ekki hvað gerðist. Það voru reyndir menn þarna og gætu hafa gert mistök. Það gerist í öllum leikjum,“ segir Rúnar Birgir Gíslason, formaður dómaranefndar KKÍ, en hvað voru dómarar að tala um Ara á Facebook?

„Ég veit ekki hvað Ari er að fara þarna. Á því spjallsvæði sem ég er inn á man ég ekki eftir að það hafi verið minnst á Ara Gunnarsson. Ég veit ekki hvað hann er að í vísa í þar.“

Ari kvartaði einnig yfir því að Leifur Garðarsson dómari hefði tekið utan um Inga Þór Steinþórsson, þjálfara Snæfells, er Ingi var að kvarta í honum í hálfleik.

„Ég skil ekki tilfinningar allra. Ég man er ég var að dæma að menn hlustuðu betur ef maður snerti þá. Þeir virtust ekki heyra annars. Þetta er bara svona klassískt hjá dómara að segja þjálfara að slaka á. Ég sé ekki stórmálið þarna.“

Að ofan má sjá viðtalið við Ara frá í gær.


Tengdar fréttir

Ari: Veit af umræðu dómaranna um mig á Facebook

Þjálfari Vals var æfur eftir naumt tap gegn Snæfelli í Dominos-deild kvenna en hann hellti sér yfir dómaraparið í viðtölum eftir leik þar sem hann sagðist vita af spjallþræði um sig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×