Skoðun

Endurskoðun peningastefnu er óvissuferð

Sigurður Hannesson skrifar
Það er ekki lögmál að raunvextir á Íslandi séu hærri en í nágrannalöndunum þó sú hafi verið raunin lengi. Markmiði ríkisstjórnarinnar um endurskoðun peningastefnu er fagnað enda hefur legið fyrir að hún færi fram þegar fjármagnshöft væru losuð.

Breytt efnahagslandslag kallar einnig á slíka endurskoðun en ferðaþjónusta er nú mikilvæg stoð í hagkerfinu og ein af ástæðum þess að krónan hefur styrkst umtalsvert. Til að skapa stöðugleika þarf að styrkja umgjörð krónunnar, sem hefur í gegnum tíðina verið birtingarmynd óstöðugleika í efnahagslífinu en ekki ástæða hans.

Hugmyndin að baki hávaxtastefnunni er sú, að háir vextir slái á eftirspurn í hagkerfinu, sporni þannig gegn verðbólgu og hvetji til sparnaðar. Hins vegar laða háir vextir erlent fjármagn til landsins og letja landsmenn til erlendra fjárfestinga. Við núverandi aðstæður styrkist krónan og afkoma útflutningsgreina versnar.

Styrking krónu auðveldar Seðlabankanum tímabundið að ná markmiðum sínum um lága verðbólgu enda lækkar verð á innfluttum vörum með sterkri krónu. Hins vegar hafa hávaxtamyntir tilhneigingu til þess að styrkjast yfir lengri tímabil en veikjast svo skyndilega. Dæmið snýst þá við og verðbólga skýtur upp kollinum með tilheyrandi skelli fyrir heimilin í landinu, sem eru að mestu leyti með verðtryggðar skuldir. Allir finna fyrir slíkum samdrætti.

Ráðast þarf að rótum vandans. Þannig verður að vinna gegn háum raunvöxtum en ekki gjaldmiðlinum sjálfum til að eyða ójafnvæginu sem skapast með reglulegu millibili á Íslandi og leiðir til efnahagsáfalla. Endurskoðun peningastefnu þarf að taka tillit til þessa eigi hún að vera vera trúverðug.

Víðtæk samstaða virðist ríkja milli stjórnmálaflokka og Seðlabankans um nauðsyn þess að endurskoða peningastefnuna. Hins vegar ríkir engin samstaða um málið efnislega þar sem sjónarmiðin eru allt frá því að aðhyllast upptöku annarrar myntar yfir í sjálfstæða peningastefnu með íslensku krónunni og allt þar á milli. Ef áfangastaðurinn liggur ekki fyrir missir ferðalagið marks.

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×