Körfubolti

Durant skoraði 34 stig á gamla heimavellinum | Myndbönd

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Russell Westbrook sækir að Kevin Durant, sínum gamla liðsfélaga.
Russell Westbrook sækir að Kevin Durant, sínum gamla liðsfélaga. vísir/getty
Átta leikir fóru fram í NBA-deildinni í körfubolta í nótt.

Kevin Durant mætti aftur á sinn gamla heimavöll þegar Oklahoma City Thunder tók á móti Golden State Warriors.

Sem kunnugt er fór Durant frá Oklahoma og til Golden State í sumar en sú ákvörðun fór illa í stuðningsmenn Oklahoma.

Durant átti góðan leik í nótt og skoraði 34 stig og tók níu fráköst í 114-130 sigri Golden State sem er á toppnum í Vesturdeildinni. Klay Thompson og Steph Curry skoruðu 26 stig hvor en sá síðarnefndi tók einnig átta fráköst og gaf níu stoðsendingar.

Russell Westbrook var að venju atkvæðamestur hjá Oklahoma með 47 stig, 11 fráköst og átta stoðsendingar.

Philadelphia 76ers batt enda á sigurgöngu Miami Heat þegar liðið vann 117-109 sigur í leik liðanna í Philadelphia. Fyrir leikinn í nótt var Miami búið að vinna 13 leiki í röð.

Dario Saric og Robert Covington skoruðu 19 stig hvor fyrir Philadelphia sem lék án miðherjans Joel Embiid í nótt.

Goran Dragic skoraði 30 stig fyrir Miami og James Johnson kom með 26 stig af bekknum.

LeBron James og Kyrie Irving skoruðu 27 stig hvor þegar Cleveland Cavaliers vann 125-109 sigur á Denver Nuggets á heimavelli.

Auk þess að skora 27 stig gaf James 12 stoðsendingar. Þá skilaði Kevin Love 16 stigum og níu fráköstum.

Úrslitin í nótt:

Oklahoma 114-130 Golden State

Philadelphia 117-109 Miami

Cleveland 125-109 Denver

Charlotte 102-107 LA Clippers

Indiana 100-116 Milwaukee

Houston 133-102 Phoenix

Dallas 112-80 Orlando

Utah 104-112 Boston

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×