Skoðun

Listamannalaun – hví þessi læti?

Guðmundur Edgarsson skrifar
Nú er í gangi hin árlega umræða um listamannalaunin. Nokkur hundruð listamenn fengu nefnilega úthlutað styrk úr listamannasjóði fyrir nokkru. Allmargir, sér í lagi frjálshyggjumenn, keppast við að gagnrýna þessa styrki og telja að listamenn eigi að vera sjálfum sér nógir með sölu á sínum verkum en ekki reiða sig á fjárstuðning frá ríkinu.

Þótt taka megi undir þessar gagnrýnisraddir er mikilvægt að halda sig við prinsippin en hamast ekki á einum tilteknum hópi fremur en öðrum. Hvað með aðra þá er þiggja fjárstyrki úr ríkissjóði eins og afreksfólk í íþróttum (Afreksmannasjóður) eða frumkvöðla úr tæknigeiranum (Tækniþróunarsjóður)? Geta þessir hópar ekki einnig verið sjálfum sér nægir og reitt sig á tekjur af sinni vinnu á markaði eða frjáls framlög? Af hverju fá slíkir hópar frið fyrir þeirri linnulausu gagnrýni sem listamenn þurfa iðulega að þola?

List skapar líka verðmæti

Vera má að skýringin á hinum neikvæðu viðbrögðum sumra gagnvart ríkisstyrkjum til listamanna felist í þeirri mýtu, að þeir skapi ekki raunveruleg verðmæti fyrir þjóðfélagið líkt og t.d. íþróttamenn eða frumkvöðlar. Þetta er vitaskuld alrangt. Listsköpun hér á landi nemur nefnilega verulegu hlutfalli af þjóðarframleiðslu. Stærðargráðan er vel á annað hundrað milljarða. Ekki nóg með það, langstærsti hlutinn kemur frá hinum frjálsa markaði, ekki í formi niðurgreiðslna hins opinbera.

Við frelsisunnendur og talsmenn markaðslausna verðum því að gæta samræmis í máli okkar og ekki fara hamförum gagnvart einum hópi ríkisstyrkþega á meðan fjölmargir aðrir hópar njóta sams konar fjárstuðnings gagnrýnislaust.

Segjum einfaldlega: Ríkið á ekki að styrkja eða veðja á einhverja tiltekna íþróttamenn, frumkvöðla eða listamenn fremur en aðra. Markaðurinn á alfarið að sjá um slíkt í umhverfi þar sem sköttum og öðrum viðskiptahindrunum er haldið í lágmarki. Markaðurinn talar nefnilega skýrt: þeim er refsað sem fást við iðju sem þeir ráða illa við og beint annað; hinum er hampað og hvattir til enn frekari dáða.

 

Greinin birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Sjá meira


×