Viðskipti innlent

Icelandair í öðru sæti yfir verstu flugfélög ársins 2016: „Í sumar áttum við slæmt tímabil“

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Ástæður fyrir þessum seinkunum síðasta árs má rekja til mikils ferðamannastraums síðastliðið sumar sem og erfiðra aðstæðna á Keflavíkurflugvelli.
Ástæður fyrir þessum seinkunum síðasta árs má rekja til mikils ferðamannastraums síðastliðið sumar sem og erfiðra aðstæðna á Keflavíkurflugvelli. Visir/Vilhelm
Icelandair situr í öðru sæti yfir verstu flugfélög ársins 2016. Þetta kemur fram í skýrslu FlightStats sem tekur saman bestu og verstu flugfélög ársins og metur áreiðanleika flugfélaganna. Samkvæmt skráningu fyrirtækisins eru um 41 prósent líkur á því að flugi Icelandair seinki. Air India er í þriðja sæti og El Al í því fyrsta með 56 prósent líkur á seinkunum.

Vísir heyrði í Guðjóni Arngrímssyni upplýsingafulltrúa Icelandair vegna þessa og telur hann að Icelandair hafi ekki komið jafn illa út úr könnunum sem þessum hingað til. Ástæður fyrir þessum seinkunum síðasta árs má samkvæmt Guðjóni rekja til mikils ferðamannastraums síðastliðið sumar sem og erfiðra aðstæðna á Keflavíkurflugvelli.

„Stundvísi Icelandair framan af árinu var ágæt og líka reyndar seinni hluta ársins en í sumar áttum við slæmt tímabil sem byrjaði með verkfallsaðgerðum flugumferðastjóra sem trufluðu okkur í sumarbyrjun og síðan þessi mikli vöxtur á Keflavíkurflugvelli sem gekk ekki vel að komast í gegnum í sumar. Það eru tölurnar sem draga okkur niður þetta árið,“ segir Guðjón.

Guðjón segir að þeir muni skoða verkferla og læra af mistökum síðasta árs.

,,Sumarið í fyrra var mjög lærdómsríkt hvað það varðar fyrir okkur og fyrir Keflavíkurflugvöll líka.’’






Fleiri fréttir

Sjá meira


×