Enski boltinn

Rio: Hefði dregið hann á hárinu til Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Renato Sanches.
Renato Sanches. Vísir/Getty
Rio Ferdinand, fyrrum leikmaður Manchester United, hefur sterkar skoðanir á leikmannamálum félagsins en Rio spilaði með United-liðinu í tólf ár.

Manchester Untied eyddi 90 milljónum punda, 12,6 milljörðum íslenskra króna, í miðjumanninn Paul Pogba sem félagið keypti frá Juventus í sumar en Rio er ekki sáttur við þá ákvörðun að kaupa ekki portúgalska landsliðsmaninn Renato Sanches líka.  Hann vildi sjá félagið henda einnig stórri upphæð í Renato Sanches

Renato Sanches var orðaður við Manchester United en á endanum var það þýska stórliðið Bayern München sem keypti hann á 35 milljónir evra frá Benfica í sumar. Sú upphæði gæti þó endaði í 80 milljónum evra nái strákurinn ákveðnum takmörkum.  80 milljónir evra eru 9,8 milljarðar íslenskra króna.

Rio Ferdinand sagði frá aðdáun sinni á Renato Sanches í viðtali við portúgalska blaðið A Bola.

Renato Sanches þekkist vel á sínu mikla hári og Rio Ferdinand notaði einmitt hárið í líkingamáli sínu. „Ég hefði dregið hann á hárinu til Manchester United,“ sagði Rio Ferdinand við blaðamann A Bola.

„Ef ég hefði verið njósnari hjá Manchester Untied þá væri Renato Sanches leikmaður félagsins í dag,“ bætti Rio við.

Í októbermánuði var Renato Sanches valinn „Gulldrengurinn“ sem eru verðlaun fótboltablaðamanna í Evrópu til besta leikmannsins undir 21 árs sem spilar í einni af bestu deildum Evrópu. Þetta er í fyrsta sinn sem „Gulldrengurinn“ spilar með Bayern München.

Það fer ekkert á milli mála að Rio Ferdinand hefur mikla trú á þessum nítján ára miðjumanni sem varð Evrópumeistari með Portúgal á EM í Frakklandi í sumar. Hann hefur þegar spilað 11 landsleiki fyrir Portúgal.

„Renato er nútímaleikmaður. Hann er agressívur, sterkur, kraftmikill, hefur góða tækni og getur bæði skotið og sent boltann. Ég er hrifinn af honum,“ sagði Rio Ferdinand.

Renato Sanches verður væntanlega hjá Bayern München í langan tíma en hann gerði fimm ára samning við þýska félagið.

Renato SanchesVísir/Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×