„Bravó!“ voru til dæmis fyrstu viðbrögðin frá Jean-Marie Le Pen, hinum aldna stofnanda og fyrrverandi leiðtoga Þjóðfylkingarinnar í Frakklandi. „Í dag Bandaríkin, á morgun Frakkland.“
Hann sagði sigur Trumps vera spark í rassinn á því stjórnmála- og fjölmiðlakerfi sem talað hefur máli alþjóðavæðingar viðskiptanna.

Félagi þeirra, Geert Wilders, leiðtogi Frelsisflokksins í Hollandi, var ekki síður ánægður og sagði sigur Trumps vera sér og félögum sínum gríðarleg hvatning til frekari dáða.
Í Ungverjalandi óskaði Viktor Orban forseti Trump til hamingju: „Mikið eru þetta frábærar fréttir. Lýðræðið er enn á lífi.“

Og Frauke Petry, ein af forystumönnum þýska flokksins AfD, sagði sigur Trumps vera sögulegan: „Bandaríkjamenn hafa kosið nýtt upphaf stjórnmálanna og tekið afstöðu gegn spillingunni.“
Þá fagnar Carl I. Hagen, sem áratugum saman var leiðtogi norska Framfaraflokksins, einnig sigri Trumps. Hann getur jafnframt ekki stillt sig um að skjóta á arftaka sinn, Siv Jensen, sem hefur reynt að gera málflutning flokksmanna hófstilltari eftir að hún tók við leiðtogaembættinu: „Það verður virkilega spennandi að sjá hvort Donald Trump tekst að framkvæma eitthvað af því sem hann hefur sagt, eða hvort embættismönnum og kerfinu tekst að temja hann.“
Allir þessir flokkar, og fleiri til, eiga það sameiginlegt að höfða til óánægju og jafnvel ótta meðal þeirra sem vilja halda í hefðbundið þjóðfélagsmynstur. Þeir hafa varað við innflytjendum, mótmælt áhrifum alþjóðavæðingar og vantreyst stjórnvöldum.
Þeir horfa nú greinilega, allir sem einn, til Donalds Trump og vonast til að njóta forystu hans í þessum málum.
Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu