Skoðun

Í bullandi mótsögn?

Elín Oddný Sigurðardóttir skrifar
Fjárhagsstaða flestra sveitarfélaga landsins er erfið. Eitt helsta baráttumál Sambands íslenskra sveitarfélaga er að tekjuskipting milli ríkis og sveitarfélaga verði endurskoðuð í ljósi nýrra verkefna og aukinna krafna um þjónustu.

Sjálfstæðismenn svara því til þegar þeir voru spurðir að því hvort þeir ætli að styrkja tekjustofna sveitarfélaga að slíkt standi ekki til. Sjálfstæðisflokkurinn svarar því til að tekjustofnar sveitarfélaga hafi styrkts og ekki standi til að auka álögur á íbúa. Sveitarfélög verði einfaldlega að forgangsraða! Nú veit ég ekki hvernig Sjálfstæðismenn fá það út að það að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga feli í sér auknar álögur á íbúa.

Spurningin snýst ekki um það heldur því hvernig þeim sköttum sem nú þegar eru innheimtir er skipt á sanngjarnan hátt þannig að þeir dugi til að fjármagna þau verkefni sem fyrir liggja. Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga og oddviti Sjálfstæðismanna í borginni skrifar grein í málgagnið þar sem hann varar við því að sömu flokkar og séu í meirihluta í Reykjavíkurborg taki við stjórn landsmálanna. Hann heldur því fram að Reykjavíkurborg sé illa rekið sveitarfélag, þegar hann veit fullvel í stöðu sinni sem formaður Sambands Íslenskra Sveitarfélaga að fjárhagsstaða flestra sveitarfélaga landsins er slæm.

Ástæðan fyrir því er fyrst og fremst sú að nýjum verkefnum hefur ekki fylgt nægjanlegt fjármagn. Við þurfum að stokka spilin upp á nýtt og tryggja fjármagn í grunnþjónustu sveitarfélaga. Sum sveitarfélög standa betur á meðan önnur undir stjórn Sjálfstæðismanna hafa fengið skipaða yfir sig fjárhaldsstjórn.

Ég býð spennt eftir gagnrýni frá formanni Sambands Íslenskra Sveitarfélaga á þá stefnu Sjálfstæðisflokksins að ekki standi til að endurskoða tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Annars hlýtur formðurinn að ganga gegn helsta baráttumáli Sambandsins um að kökunni verði skipt upp á nýtt þannnig að hægt sé að tryggja nauðsynlega grunnþjónustu sveitarfélaga.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×