Körfubolti

Slök þriggja stiga nýting í tapi fyrir Hvíta-Rússlandi

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Kári var stigahæstur í íslenska liðinu með 24 stig.
Kári var stigahæstur í íslenska liðinu með 24 stig. vísir/ernir
Tuttuguogfjögur stig Kára Jónssonar dugðu Íslandi ekki til sigurs gegn Hvíta-Rússlandi á EM U-20 ára landsliða í körfubolta í Grikklandi í kvöld.

Hvít-Rússarnir höfðu betur, 73-70, en slæmur kafli undir lok 1. leikhluta varð íslenska liðinu að falli.

Íslensku strákarnir voru í ágætis málum framan af 1. leikhluta. En á síðustu þremur og hálfu mínútu hans breyttu Hvít-Rússarnir stöðunni úr 12-10 í 21-12 og leiddu því með níu stigum eftir 1. leikhluta.

Eftir þennan slæma kafla var íslenska liðið alltaf að elta. Staðan í hálfleik var 41-34 og þrátt fyrir góða viðleitni náðu íslensku strákarnir ekki að snúa dæminu sér í vil.

Miklu munaði um slaka þriggja stiga nýtingu en aðeins sex af 36 þristum Íslands rötuðu rétta leið.

Kári var langstigahæstur í íslenska liðinu með 24 stig en Jón Axel Guðmundsson kom næstur með 14 stig og 10 fráköst. Kári tók einnig sex fráköst og stal boltanum sjö sinnum. Hjálmar Stefánsson skoraði níu stig og tók sjö fráköst.

Ísland mætir Rússlandi klukkan 18:00 á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×