Fótbolti

Rassskelltu Rússana og sendu þá heim af EM | Bale með sitt þriðja mark á mótinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Aaron Ramsey og Gareth Bale fagna í kvöld.
Aaron Ramsey og Gareth Bale fagna í kvöld. Vísir/Getty
Gareth Bale og félagar í velska landsliðinu tryggðu sér sæti í sextán liða úrslitum Evrópumótsins í Frakklandi í kvöld eftir sannfærandi 3-0 sigur á Rússlandi en þá fór fram lokaumferðin í B-riðlinum.

Wales tryggði sér ekki aðeins sæti í næstu umferð með þessum glæsilegra sigri heldur nægði hann einnig til að vinna riðilinn þar sem að enska landsliðið gerði markalaust jafntefli á sama tíma.

Rússar fengu aðeins eitt stig í riðlinum og eru því á heimaleið frá Frakklandi eins og Rúmenar. Rússneska liðið slapp með skrekkinn í fyrsta leiknum á móti Englandi og tapaði síðan tveimur síðustu leikjum sínum.

Velska liðið er á sínu fyrsta Evrópumóti og á sínu fyrsta stórmóti frá 1958 og stuðningsmenn liðsins eru örugglega í skýjunum með þess frábæru frammistöðu liðsins. Tveir sigrar og sárgrætilegt tap á móti Englandi eru meira en örugglega flestum dreymdi um.

Wales byrjaði leikinn frábærlega og velska liðið skoraði tvö mörk á fyrstu tuttugu mínútum leiksins. Það fyrra skoraði Aaron Ramsey á 11. mínútu eftir frábæra sendingu Joe Allen inn fyrir vörnina og það síðara skoraði Neil Taylor á 20. mínútu en það er ekki á hverjum degi sem hann skoraði.

Igor Akinfeev hafði mikið að gera í rússneska markinu og varði ófá skotin í leiknum. Gareth Bale lék lausum hala í leiknum og reyndi mörg skotin en Akinfeev sá við honum fram eftir leik.

Gareth Bale tókst loksins að skora á 67. mínútu eftir að hafa fengið sendingu frá Aaron Ramsey. Bale er nú markahæsti leikmaður Evrópumótsins með þrjú mörk.

Gengi Rússa á EM í Frakklandi hlýtur að vera mikið áhyggjuefni en þeir halda eins og kunnugt er næstu heimsmeistarakeppni sem fer fram eftir aðeins tvö ár. Það þarf að taka mikið til í liðinu fram að því.

Aaron Ramsey kemur Wales í 1-0 Neil Taylor kemur Wales í 2-0



Fleiri fréttir

Sjá meira


×