Fótbolti

Kári um Ronaldo: Enn sætari sigur fyrst hann er svona tapsár

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ronaldo fékk eitt mjög gott færi í leiknum undir lokin og var góður í fyrri hálfleik. Í þeim síðari voru varnarmenn íslenska liðsins með súperstjörnuna í vasaranum.

„Þeir fögnuðu eins og þeir hefðu unnið Evróputitilinn eða eitthvað. Það er merki um lélegt hugarfar. Það er ástæðan fyrir því að þeir munu ekki gera neitt á þessu móti,“ var haft eftir Ronaldo í gærkvöldi.

Sjá einnig:Heimir: Kom enginn hingað til að taka í höndina á Ronaldo

Kári Árnason, miðvörður Íslands, ræddi við breska fjölmiðla eftir leikinn en þeir ásamt nokkrum Portúgölum voru þeir einu sem fengu að ræða við Ronaldo á viðtalssvæði skrifandi blaðamanna í gær.

Kári var spurður út í ummæli Ronaldo sem kom sér einnig hjá því að taka í hendur strákanna okkar í reiði sinni eftir leikinn.

„Sigurinn verður bara enn sætari fyrst hann er svona tapsár. Hann getur sagt það sem hann vill. Hann fékk varla færi í dag. Hann fékk eitt færi en gat ekki nýtt það. Hvað get ég sagt. Hann er tapsár,“ sagði Kári.

„Ronaldo er frábær fótboltamaður en ekki auðmjúk manneskja. Við vorum alveg nálægt því að stela sigrinum þannig það sem hann segir stemmir ekki við þá staðreynd.“

Sjá einnig:Ronaldo fær það óþvegið frá heimsbyggðinni eftir ummæli sín um litla Ísland

„Við náðum jafntefli og gátum stolið sigrinum. Augljóslega vorum við ekki að skapa okkur jafn mikið og frábært lið eins og Portúgal en orðin sem hann lætur falla er ástæðan fyrir því að Lionel Messi verður alltaf skrefi á undan honum,“ sagði Kári Árnason.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×