Fótbolti

Kolbeinn: Förum í leikinn til að ná í þrjú stig

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson á blaðamannafundinum í dag.
Kolbeinn Sigþórsson á blaðamannafundinum í dag. vísir/tom
Íslenska landsliðið í fótbolta mætir Ungverjalandi í öðrum leik liðsins á EM 2016 á morgun en Ungverjar eru með þrjú stig eftir frækinn sigur á Austurríki í fyrstu umferðinni.

Ísland er með eitt stig eftir að ná jafntefli gegn Portúgal í fyrsta leik liðsins á stórmóti frá upphafi. Ungverjar hafa ekki komist á stórmót í 30 ár.

„Þetta er bara stál í stál finnst mér. Ungverjaland er með virkilega sterkt lið. Hugarfarið hjá þeim er svipað og há okkur. Þeir vinna fyrir hvorn annan og fá ekki mikið af mökrum á sig,“ sagði Aron Einar Gunnarsson á blaðamannafundi í dag.

„Þetta er bara spurning um hvernig við komum til með að mæta þeim og hvort þeir spili upp á jafntefli eða ekki. Ég held að svo verði ekki. Þeir vilja vafalítið fá þrjú stig til að mæta aðeins lakara liði í sextán liða úrslitunum,“ sagði Aron

Strákarnir svöruðu ekki beint hvort allt minna en þrjú stig væru óásættanleg úrslit í Stade Vélodrome í Marseille á morgun en takmarkið er engu að síður skýrt.

„Við förum í þennan leik til að ná í öll þrjú stigin svo það sé á hreinu. En bæði lið hugsa þannig. Þetta er mikilvægur leikur fyrir þau bæði. Við búumst við öllu í þessum leik en ætlum okkur þrjú stig,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).






Tengdar fréttir

Ungverjar: Ísland á skilið okkar virðingu

Ungverjar voru með blaðamannafund í Marseille rétt áðan og þangað mætti þjálfari liðsins og tveir leikmenn. Þar var talað fallega um íslenska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×