Fótbolti

Kolbeinn: Stress yfir að missa af EM en nú finn ég ekki fyrir neinu

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Kolbeinn Sigþórsson gerði grín að leikmönnum Portúgals í loftinu.
Kolbeinn Sigþórsson gerði grín að leikmönnum Portúgals í loftinu. vísir/vilhelm
Strákarnir okkar í íslenska landsliðinu í fótbolta eiga fyrir höndum risastóran leik gegn Ungverjalandi í Marseille í dag í annarri umferð riðlakeppni EM 2016.

Ungverjaland er í betri stöðu eftir fyrstu umferðina þar sem liðið vann flottan sigur á Austurríki, 2-0, en strákarnir okkar eru með eitt stig eftir frækið jafntefli gegn Portúgal.

Kolbeinn Sigþórsson var brattur á blaðamannafundi íslenska liðsins í gær. Hann sagði strákana stefna á sigur gegn Ungverjalandi enda væri liðið fullt sjálfstrausts eftir frammistöðuna gegn Portúgal.

„Sjálfstraustið í liðinu er meira eftir fyrsta leikinn. Það var gott að koma til baka eftir að vera 1-0 undir gegn jafnsterku liði og Portúgal er,“ sagði Kolbeinn.

„Við þurfum að halda þessu áfram og spila aftur vel gegn Ungverjalandi. Þetta verður erfiður leikur en Ungverjar sýndu í síðasta leik að það er erfitt að vinna þá. Við þurfum að eiga góðan leik til að fá öll þrjú stigin sem við þurfum.“

Kolbeinn var meiddur í aðdraganda mótsins og fór meira að segja í sprautu í Barcelona til að létta á þrýsting í hnénu. Allt sem var gert við hann virðist hafa virkað því hann spilaði eins og höfðingi gegn Portúgal og er meira en klár í slaginn gegn Ungverjalandi.

„Þetta hefur allt saman gengið eins og í sögu síðustu fjórar vikur. Ég var ekki viss um að ég myndi ná EM og það var stress í mér á tímabili,“ sagði Kolbeinn.

„Eftir leikinn gegn Portúgal var ég bara betri í hnénu ef eitthvað er. Ég finn ekki fyrir neinu og verð að hrósa öllum þeim sem hafa hjálpað mér. Sjúkraþjálfararnir hafa unnið frábært verk og þess vegna er ég klár,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×