Fótbolti

Deila húsnæði með hressustu Ungverjunum í Marseille

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ásgerður María Franklín, Tómas Guðmundsson, Guðmundur Stefán Jónsson og Stefán Franklín.
Ásgerður María Franklín, Tómas Guðmundsson, Guðmundur Stefán Jónsson og Stefán Franklín. Vísir/Vilhelm
Þau Ásgerður María Franklín, Tómas Guðmundsson, Guðmundur Stefán Jónsson og Stefán Franklín duttu heldur betur í lukkupottinn í íbúðarsamstæðunni sem þau leigja í Marseille. Með þeim er hópur Ungverja sem er ekkert lítið spenntur fyrir leiknum á morgun.

Blaðamaður hitti á fyrrnefnd fjögur á stuðningsmannasvæðinu í Marseille í gærkvöldi og þau voru hin hressustu í sólinni.

„Við vorum vakin með söng: „Ria Ria Hungaria“ sem þýðir Áfram áfram Ungverjaland. Þeir voru að skemmta sér frá klukkan tíu í morgun,“ segir Guðmundur og kann greinilega vel við Ungverjana eins og restin af hópnum.

„Þeir eru virkilega tilbúnir í leikinn.“

En það eru hin fjögur fræknu líka og ætluðu að syngja „Ég er kominn heim“ fyrir Ungverjana í gærkvöldi. Þau efldust öll þegar blaðamaður spurði þau hvort þau vissu ekki örugglega að lagið væri ungverskt þótt textinn væri íslenskur.

„Það verður tekið í kvöld. Við ætlum að halda upp á 17. júní með því að klára fallegasta lagið með hönd á brjóst. Það væri geðveikt,“ segir Guðmundur. Þau eru öll bjartsýn fyrir leikinn í dag. Guðmundur, Stefán og Ásgerður spá öll 2-1 sigri og er Guðmundur Stefán viss um að Alfreð og Ari Freyr skori mörkin.

„Þetta verður markaleikur,“ segir Tómas og spáir því að Alfreð skori þrennu. Greinilegt var að hópurinn var í aðdáendahópi framherjans snjalla.

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook , Twitter og Snapchat (sport365).




Fleiri fréttir

Sjá meira


×