Fótbolti

Þrjár ástæður Heimis fyrir slökum sóknarleik gegn Ungverjalandi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands.
Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands. Vísir/Vilhelm
Það hefur verið margrætt um það hversu góðan varnarleik Ísland hefur spilað á EM í Frakklandi. 1-1 jafntefli í báðum leikjunum til þessa bera vott um það.

Ísland var ánægt með jafnteflið í fyrsta leiknum, gegn Portúgal, en var svo svekkt með niðurstöðuna gegn Ungverjalandi þar sem Ísland leiddi þar til á lokamínútum leiksins.

Ísland hefur verið minnst allra liða á EM með boltann og það virðist vera önnur holning á liðinu nú og í undankeppninni, sérstaklega þegar sóknarleikurinn er skoðaður.

Sjá einnig: Lars: Strákarnir svindla ekki en þurfa samt að vera aðeins kaldari

„Við slítum þennan leik [gegn Ungverjum] í sundur. Við erum rosalega ánægðir með varnarleikinn og gáfum Ungverjum engin opin færi þar til þeir skora markið. Það er ótrúlega vel gert, sérstaklega miðað við að þeir voru 70 prósent með boltann,“ sagði Heimir Hallgrímsson landsliðsþjálfari við Vísi.

„En við áttum að vera meira með boltann en bara 30 prósent. Við hefðum þurft að halda honum lengur og gera meira með hann. Við hefðum þurft að vera klókari.“

Heimir ræddi við fjölmiðla í Annecy í dag og Vísir spurði hann út í þennan mun á liðinu frá því í undankeppnni og af hverju íslenska liðinu hefði tekist illa upp að halda boltanum innan liðsins og byggja upp sóknir.

„Það geta verið margir þættir. En ég ætla að nefna þrjár ástæður,“ sagði hann og hér eru þær, í orðum Heimis:

Gylfi Þór svekktur.Vísir/Vilhelm
1. Það eru allir búnir að leikgreina okkur

„Það eru allir búnir að leikgreina okkur enda höfum við ekki breytt um leikstíl í fjögur ár. Ungverjar gerðu það vel og voru sérstaklega kraftmiklir gegn okkur. Þeir pressuðu okkur framarlega og lokuðu á svæði sem gerði okkur erfitt fyrir.“

2. Taugarnar spiluðu höfðu áhrif

„Við vorum mjög nálægt því að tryggja okkur inn í 16-liða úrslitin og því hafa taugarnar spilað inn í. Leikmenn voru of varkárir. Við megum aldrei vera passívir í því sem við gerum. Við verðum líka að vera með sóknarhugsun, árásagjarnir í sókn og hugrakkir í sókn.“

„Við megum ekki spila vörn þegar við erum með boltann. Ég gæti því trúað að þetta hafi verið ákveðin sálfræði sem spilaði inn í. Við vorum með sigurinn í höndunum, þurftum bara að halda einu marki og vorum að leggja of mikla áherslu á varnarleikinn.“

Alfreð í baráttunni.Vísir/Vilhelm
3. Ungverjar eru góðir

„Ungverjar eru með ótrúlega gott lið. Ég reyndi að segja það fyrir leik. Fyrir leik sögðu margir að þetta væri leikurinn sem við ættum að vinna. En þeir voru betri en við inni á vellinum, þó svo að við hefðum fengið betri færi. Austurríki steinlá fyrir Ungverjalandi og ég er sannfærður um að Portúgal mun ekki eiga auðvelt uppdráttar gegn þeim.“

„Þetta eru þrjár skýringar. Það eru fleiri hlutir sem gætu útskýrt þetta en í mínum huga er það þetta þrennt.“

Ekki missa af neinu sem gerist á EM í Frakklandi. Vísir er með hóp fjölmiðlamanna á mótinu sem færa ykkur allar nýjustu fréttirnar af strákunum okkar. Fylgdu okkur á Facebook, Twitter og Snapchat (sport365).


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×