Körfubolti

Sendi eigið lið í sumarfrí með ótrúlegri sjálfskörfu | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jermaine Marshall á vondri stundu með Arizona-skólanum en hún getur ekki hafa verið jafn slæm og sú á laugardaginn.
Jermaine Marshall á vondri stundu með Arizona-skólanum en hún getur ekki hafa verið jafn slæm og sú á laugardaginn. vísir/getty
Bandaríski körfuboltamaðurinn Jermaine Marshall mun ekki gleyma síðasta laugardegi svo lengi sem hann lifir. Honum tókst þá að skora sjálfskörfu í úrslitakeppninni í Grikklandi sem hjálpaði til við að senda hans lið í sumarfrí.

Marshall, sem var öflugur leikmaður í háskóla og skoraði 15,1 stig að meðaltali í leik á lokaári sínu hjá Arizona State, spilar í dag með gríska liðinu Nea Kifisia.

Hans menn voru tveimur stigum yfir þegar leikmaður mótherjanna brenndi af vítaskoti. Marshall fékk sendingu frá félaga sínum sem tók frákastið og best hefði verið ef hann hefði gert nákvæmlega ekki neitt. Þá hefði tíminn runnið út, Nea Kifisia unnið og haldið sér á lífi í rimmunni.

En Marshall gleymdi sér í smá stund og lagði boltann ofan í eigin körfu. Algjör sturlun, en þessi flautukarfa í hans eigin körfu kom leiknum í framlengingu.

Hlutirnir fóru úr öskunni í eldinn fyrir Marshall því Nea Kifisa tapaði leiknum, 108-103, eftir tvöfalda framlengingu og var sent í sumarfrí.

Þetta ótrúlega myndband má sjá hér að neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×