Körfubolti

Jakob svekktur út í sjálfan sig

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu.
Jakob Sigurðarson í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Vísir
Jakob Sigurðarson og félagar í Borås Basket eru komnir í sumarfrí eftir fjórða tapið á móti Södertälje Kings. Jakob fór inn á fésbókina eftir leikinn og þakkaði öllum fyrir tímabilið.

Borås Basket tapaði síðasta leiknum með aðeins tveimur stigum á útivelli en einvíginu 4-1 samanlagt.

Jakob Sigurðarson fann sig ekki í lokaleiknum og skilaði aðeins 2 af 11 skotum sínum í körfuna. Hann endaði með 5 stig og 3 fráköst.

Jakob viðurkenndi það í færslu sinni að hann væri svekktur út í sjálfan sig en jafnframt að hann ætlaði að koma sterkur til baka.

„Ég vil þakka öllum sem komu að Borås Basket liðinu á þessu tímabili. Það hefur verið magnað að sjá hversu vel allir hafa tekið á móti mér og fjölskyldu minni hjá klúbbnum. Ég er mjög þakklátur fyrir það," sagði Jakob sem var að klára sitt fyrsta tímabil með Borås Basket.

„Ég er mjög vonsvikinn með sjálfan mig í þessum lokaleik en ég hef bæði hitt úr og klikkað á þessum skotum mörgum sinnum á ferlinum og veit hvernig ég á að bregðast við. Ég trúi á Borås Basket og er viss um að góðir hlutir munu gerast á næsta tímabili. Við verðum tilbúnir," sagði Jakob Sigurðarson sem hélt upp á 34 ára afmælið sitt á dögunum.

Jakob spilaði alls 39 leiki með Borås Basket á tímabilinu og var með 15,6 stig, 2,9 fráköst og 1,7 stoðsendingar að meðaltali í þeim. Hann kom til Borås eftir að hafa leikið með Sundsvall Dragons frá 2009 til 2015.

Jakob varð einmitt sænskur meistari á sínu öðru ári með Sundsvall Dragons vorið 2011 og það verður því fróðlegt að sjá hvað gerist á næsta tímabili.


Tengdar fréttir

Jakob og félagar gengu á vegg í fyrsta leik

Íslenski landsliðsbakvörðurinn Jakob Sigurðarson og félagar í Borås Basket eru lentir 1-0 undir í undanúrslitaeinvígi sinu í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Jakob og félagar enn á lífi

Jakob Örn Sigurðarson og félagar í Borås Basket eygja enn von um að komast í úrslitrimmuna í sænska körfuboltanum.

Mitt erfiðasta ár hjá Drekunum

Hlynur Bæringsson og hans menn í Sundsvall Dragons hafa átt erfitt ár í sænsku úrvalsdeildinni. Fjárhags­erfiðleikar hafa einkennt tímabilið og fer liðið í úrslitakeppnina um helgina með sjö leikja taphrinu á bakinu.

Jakob og félagar í vondum málum

Jakob Örn Sigurðarson og félagar í Borås Basket eru í erfiðum málum eftir 64-93 tap fyrir Södertälje Kings á heimavelli í fjórða leik liðanna í undanúrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×