Körfubolti

Ingunn Embla óhrædd við að rifja upp ófarir síns liðs á Twitter

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ingunn Embla Kristínardóttir.
Ingunn Embla Kristínardóttir. Vísir/Anton
Tímabil landsliðskonunnar Ingunnar Emblu Kristínardóttur lauk með tapi Grindavík í oddaleik á móti Haukum í undanúrslitum Domino´s deildar kvenna í körfubolta á dögunum.

Ingunn Embla og félagar hennar í Grindavík komust í 2-0 í einvíginu en töpuðu síðan þremur síðustu leikjum sínum. Oddaleikurinn um sæti í lokaúrslitunum fór ekki vel en honum töpuðu Grindavíkurkonur með 35 stigum, 74-39.

Ingunn Embla ætlar ekkert að fara í felur með þetta slæma tap liðsins og rifjaði hún meðal annars upp skelfilegan fyrsta leikhluta liðsins á Twitter þegar hún fylgdist með Miami Heat liðinu í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í nótt.

„Miami með 41 stig í fyrsta leikhluta, ekki nema 40 stigum meira en við á móti Haukum... Við skoruðum 39 í öllum leiknum," skrifaði Ingunn Embla á Twitter-síðu sína.

Grindavíkurliðið tapaði þessum umrædda fyrsta leikhluta 12-1 þar sem eina stig liðsins kom úr vítaskoti þremur sekúndum fyrir lok hans. Grindavíkurkonur klikkuðu á öllum 20 skotum sínum í leikhlutanum þar af voru ellefu þeirra inn í teig.

Það var ekki eins og Ingunn Embla hafi hjálpað sjálf við stigaskorið því hún klikkaði á öllum fjórum skotum sínum og tókst ekki að skora eitt einasta stig í leiknum.

Það er samt gott að Ingunn Embla og félagar hennar sjái broslegu hliðarnar á erfiðum endapunkti á tímabilinu en það kemur alltaf tímabil eftir þetta og þar geta þær fyrst bætt fyrir ófarirnar í lok úrslitakeppninnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×