Íslenski boltinn

Ólafur Karl Finsen stígur til hliðar úr bæjarpólitíkinni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Ólafur Karl spilaði frábærlega þegar hann var í framboði.
Ólafur Karl spilaði frábærlega þegar hann var í framboði. vísir/anton brink
Ólafur Karl Finsen, leikmaður Stjörnunnar í Pepsi-deild karla, ætlar ekki að lenda í sömu stöðu og sumir af helstu ráðamönnum þjóðarinnar en eins og allir vita er allt í bál og brand í pólitíkinni út af Panama-skjölunum.

Ólafur Karl var níundi á Lista Fólksins í bænum, M-listanum, fyrir sveitastjórnarkosningarnar í Garðabæ árið 2014 en flokkurinn fékk 16 prósent í kosningunum 2010.

M-listinn fékk tíu prósent í síðustu kosningum og kom einum manni inni, Maríu Grétarsdóttur, en Sjálfstæðisflokkurinn réð að vanda ríkjum í Garðabænum og fékk hreinan meirihluta með 58 prósent kosningu.

„Þar sem ég á bankareikning í Hollandi ætla ég að stíga til hliðar úr M-listanum áður en bæjarpólitíkin fer í bál og brand,“ skrifar hinn ávallt skemmtilegi og hnyttni Ólafur Karl í léttum dúr á Twitter-síðu sína og bætir við myllumerkinu #virðingarvert.

Ólafur Karl skoraði þrjú mörk í 16 leikjum á síðustu leiktíð fyrir Stjörnuna en hann var í miklum kosningaham í deildinni árið áður þegar hann skoraði ellefu mörk í 21 leik og tryggði Stjörnunni Íslandsmeistaratitilinn á lokadegi Íslandsmótsins 2014.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×