Íslenski boltinn

Víkingur og KR í átta liða úrslitin en Skagamenn eru úr leik

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Þórður Þorsteinn Þórðarson og félagar í ÍA eru úr leik í Lengjubikarnum.
Þórður Þorsteinn Þórðarson og félagar í ÍA eru úr leik í Lengjubikarnum. Vísir/Ernir
Víkingur og KR komust í kvöld í átta liða úrslit Lengjubikars karla en Skagamenn sitja eftir í riðlinum þrátt fyrir 3-2 sigur á móti Víkingum í Egilshöllinni.

Skagamenn stöðvuðu fjögurra leikja sigurgöngu Víkingsliðsins í Lengjubikarnum en það dugði ekki til.

Eftir 3-0 sigur KR á Grindavík fyrr í kvöld þá varð það ljóst að Skagamenn þyrftu þriggja marka sigur á Víkingum til að komast upp fyrir Vesturbæjarliðið.

Vonir Skagamanna dvínuðu verulega þegar Ívar Örn Jónsson kom Víkingum í 1-0 á 32. mínútu með marki úr vítaspyrnu.

Albert Hafsteinsson jafnaði metin aðeins sjö mínútum síðar og því var ennþá möguleiki fyrir Akurnesinga í seinni hálfleiknum.

Víkingar fengu fjölda dauðafæra til að tryggja sér sigurinn en tókst ekki að skora sem kom heldur betur í bakið á þeim.  

Arnar Már Guðjónsson kom Skagamönnum í 2-1 á 84. mínútu en markið var fyrst dæmt af. Dómarinn ræddi við aðstoðardómara sinn og dæmdi síðan markið gilt.

Andri Rúnar Bjarnason fiskaði víti fyrir Víkinga í lokin. Gary Martin skoraði af öryggi úr því í uppbótartíma og jafnaði metin í 2-2. Martin fékk færi til að skora sigurmarkið skömmu síðar en lét verja frá sér úr fínu færi.

Skagamenn hætta aldrei og  Steinar Þorsteinsson skoraði sigurmarkið á þriðju mínútu í uppbótartíma.

KR og ÍA enda bæði með tíu stig en KR-ingar eru með betri markatölu sem skilar þeim öðru sætinu og sæti í átta liða úrslitunum.


Tengdar fréttir

Valsmenn í átta liða úrslitin eftir mikla dramatík í lokin

Valsmenn tryggðu sér sæti í átta liða úrslitum Lengjubikars karla eftir 3-2 sigur á Stjörnunni á Samsung-vellinum í Garðabæ í kvöld. Tómas Óli Garðarsson skoraði sigurmark Valsmanna í uppbótartíma en jafntefli hefði dugað Garðbæingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×