Skoðun

Baráttan um Bessastaði – 11 vísur

Ívar Halldórsson skrifar
Þótt orðið fyrirsæta virðist í fljótu bragði vera kvenkyns útgáfan af orðinu forseti er raunin þó allt önnur. Það þarf víst meira til en fallegt bros til að gegna embætti forseta á farsælan hátt.

En hverjar eru kröfur okkar til verðandi forseta? Erum við að velja út frá vel ígrunduðum viðmiðum? Er okkur nóg að hann sé fallegur og frægur – ungur og öðruvísi?

Því fleiri frambjóðendur sem stíga fram, því meira efast ég um að frambjóðendur, og í raun við sjálf sem þjóð, gerum okkur grein fyrir ábyrgð þeirri er embættinu fylgir.

Forsetavísur

Frambjóðendur flykkjast nú

í fjölmiðla og sverja

að fósturlandsins faraheill

þeir fúsir munu verja

Ýmsir vilja embættið

og aka hesti feitum

Situr þjóð við sjónvarpið

og ruglar saman reitum

Frækinn vil ég forsetann

friðsælan og góðan

Siðprúðan og sællegan

sannsöglan og fróðan

Beygja skal og bugta sig

er bæinn sækja gestir

Fánann hylla að fornum sið

Í fari hans fáir brestir

Mælskur talar mannamál

móðurmálsins vinur

Stappa kann í landann stál

er stormurinn á dynur

Í stafni skútu stendur hann

styrkurinn í brúnni

Stefnufastur stýra kann

staðfastur í trúnni

Þrætir aldrei þingmenn við

þiggur ráð með þökkum

Veit að viðkvæmt embættið

er varla ætlað krökkum

Auðbær virðist ábyrgð sú

er allir vilja þiggja

Um embættið þeir efast nú

sem undir feldi liggja

Arkar nú á önnur mið

sá sem fyrir situr

Yfirgefur embættið

auðmjúkur og vitur

Sér hann kannski sig um hönd

ef sundrast nú öll hjörðin

að eigi gefi æra upp önd

og ófrægi hér svörðinn

Hnúta ávallt heggur á

hæverskur Ó. Ragnar

Ýfist málin okkur hjá

víst endurkjöri fagnar

(Höf: Ívar Halldórs, 2016)

Þjóðin mun sýna á spilin hvernig sem viðrar þann 15. júní.




Skoðun

Sjá meira


×