Körfubolti

Drekarnir úr leik í Svíþjóð

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir
Sundsvall Dragons er úr leik í úrslitakeppni sænsku úrvalsdeildarinnar þetta árið eftir tap gegn Norrköping Dolphins, 3-1.

Norrköping vann leik liðanna í Sundsvall í kvöld, 77-71, og tryggði sér þar með sæti í undanúrslitunum. Norrköping var með væna forystu stax að loknum fyrsta leikhluta, 27-14, og lét hana aldrei af hendi.

Sundsvall náði að minnka muninn í fjögur stig þegar þrjár mínútur en nær komust drekarnir ekki. Lokatölur voru 79-71, Norrköping í vil.

Sjá einnig: Mitt erfiðasta ár hjá Drekunum

Hlynur Bæringsson lék í 38 mínútur í kvöld og skoraði fjórtán stig auk þess sem hann tók fjórtán fráköst. Hann var einnig með fimm stoðsendingar og tvo stolna bolta.

Fjárhagsvandræði hafa verið á liði Sundsvall Dragons og tapaði liðið sjö af síðustu átta leikjum sínum í deildarkeppninni, og féll svo úr leik strax í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.

Hlynur Bæringsson kom til Sundsvall Dragons árið 2010 og varð meistari á fyrsta ári sínu hjá liðinu. Hann gerði nýjan fimm ára samning við félagið síðastliðið sumar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×