Körfubolti

Stórleikur Jakobs dugði ekki til sigurs en Sundsvall jafnaði metin

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jakob Örn var magnaður í kvöld.
Jakob Örn var magnaður í kvöld. mynd/borås
Hlynur Bæringsson, landsliðsfyrirliði í körfubolta, og félagar hans í Sundsvall Dragons jöfnuðu metin í rimmu sinni gegn Norrköping Dolphins, 1-1, í átta liða úrslitum sænsku úrvalsdeildarinnar í kvöld.

Leikurinn var gríðarlega jafn og spennandi en Drekarnir skoruðu sigurkörfuna 30 sekúndum fyrir leikslok. Höfrungarnir fengu eitt tækifæri til að jafna metin en hittu ekki úr skoti úr teignum. Lokatölur, 67-65.

Hlynur átti góðan leik að vanda og skoraði 15 stig, tók sex fráköst og gaf fjórar stoðsendingar. Vinna þarf þrjá leiki til að komast í undanúrslitin en þetta eru liðin sem höfnuðu í þriðja og sjötta sæti deildarinnar.

Jakob Örn Sigurðarson var nálægt því að vera hetja Borås sem tapaði, 67-66, fyrir Nässjö á útivelli í kvöld en staðan í því einvígi er nú 1-1.

Heimamenn voru með forystuna nær allan fjórða leikhluta en Jakob skoraði þriggja stiga körfu og kom Borås í 66-65 þegar átta sekúndur voru eftir. Nässjö-liðið náði lokaskotinu og það fór ofan í um leið og lokaflautið gall. Svekkjandi fyrir Jakob og félaga.

Jakob skoraði 34 stig í leiknum og var lang bestur á vellinum. Hann hitti úr átta af 15 þriggja stiga skotum sínum. Því miður dugði þessi magnaða frammistaða ekki til sigurs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×