Körfubolti

Annað tap Jóns Arnórs og félaga á Spáni og bikardraumurinn úr sögunni

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Svekkjandi fyrir Jón Arnór og félaga hans.
Svekkjandi fyrir Jón Arnór og félaga hans. vísir/valli
Jón Arnór Stefánsson og félagar hans í spænska úrvalsdeildarliðinu Valencia eru úr leik í Konungsbikarnum á Spáni eftir tap á heimavelli í átta liða úrslitum í kvöld, 78-83.

Valencia, sem var aðeins búið að tapa einum leik á Spáni í allan vetur, lá í valnum gegn Gran Canaria sem er í fimmta sæti deildarinnar, sex sigrum á eftir toppliði Valencia.

Leikurinn var hrikalega jafn og spennandi. Staðan var 42-42 í hálfleik, en Jón Arnór og félagar voru komnir með tíu stiga forskot í byrjun fjórða leikhluta, 67-67.

Þá kom áhlaup frá gestunum sem jöfnuðu metin í 69-69 og aftur í 71-71 áður en þeir tóku svo fimm stiga sprett og komust yfir, 76-71.

Gran Canaria náði að halda forskotinu allt til leiksloka og skella toppliðinu í bikarnum og það á útivelli. Svekkjandi fyrir Jón Arnór sem komst í úrslitahelgi spænska bikarsins undanfarin tvö ár með Zaragoza.

Jón Arnór spilaði aðeins fjórar mínútur í kvöld og var stigalaus, en hann tók eitt frákast.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×