Körfubolti

Snæfellskonur unnu generalprufuna fyrir bikarúrslitaleikinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Haiden Denise Palmer.
Haiden Denise Palmer. Vísir/Stefán
Snæfell er áfram á toppi Domino´s deildar kvenna í körfubolta eftir sex stiga heimasigur á Grindavík, 75-69, í Stykkishólmi í kvöld.

Snæfellskonur hafa þar með unnið sjö síðustu deildarleiki sína og alla níu deildarleiki sína í Hólminum í vetur.

Þetta var jafnframt generalprufa fyrir bikarúrslitaleikinn eftir tíu daga því þar munu liðin mætast í Laugardalshöllinni.

Haiden Denise Palmer var stigahæst í Snæfellsliðinu en hún skoraði 20 af 29 stigum sínum í fyrri hálfleiknum og skoraði 20 stigum meira en næststighæsti leikmaður Snæfells. Gunnhildur Gunnarsdóttir og Bryndís Guðmundsdóttir skoruðu báðar 9 stig í þessum leik.

Snæfellskonur voru komnar 17 stigum yfir þegar átta mínútur voru eftir en Grindavíkurkonur minntu á sig og minnkuðu muninn í lokin.

Whitney Michelle Frazier átti flottan leik hjá Grindavík og var með 28 stig og 17 fráköst en systurnar Petrúnella og Hrund Skúladætur skoruðu báðar tíu stig.  

Snæfell byrjaði vel, komst í 8-2 og 12-6 en gestirnir úr Grindavík náðu þá fínum spretti og komust í 15-12.

Grindavík var 19-17 yfir tvær og hálf mínúta var eftir af fyrsta leikhlutanum en Snæfellskonu enduðu leikhlutann á 7-0 spretti og vann fyrsta leikhlutann því 24-19.

Snæfellsliðið var síðan komið með tíu stiga forskot í hálfleik, 43-33 en Haiden Denise Palmer skoraði 20 stig í fyrri hálfleiknum.

Snæfell var þrettán stigum yfir eftir þriðja leikhluta, 56-43, og komst síðan sautján stigum yfir, 64-47, þegar átta mínútur voru eftir af leiknum.

Grindavikurliðið gafst ekki upp og minnkað muninn niður í sex stig en nær komust þær ekki og Snæfell fagnaði sigri.



Snæfell-Grindavík 75-69 (24-19, 19-14, 13-10, 19-26)

Snæfell: Haiden Denise Palmer 29/12 fráköst, Bryndís Guðmundsdóttir 9/6 fráköst/5 stoðsendingar, Gunnhildur Gunnarsdóttir 9/4 fráköst, Sara Diljá Sigurðardóttir 7, Berglind Gunnarsdóttir 6/4 fráköst, Alda Leif Jónsdóttir 5, Hugrún Eva Valdimarsdóttir 4/5 fráköst, Rebekka Rán Karlsdóttir 3, María Björnsdóttir 3..

Grindavík: Whitney Michelle Frazier 28/17 fráköst, Petrúnella Skúladóttir 10, Hrund Skuladóttir 10/4 fráköst, Íris Sverrisdóttir 8/4 fráköst, Sigrún Sjöfn Ámundadóttir 7/11 fráköst/8 stoðsendingar, Ingibjörg Jakobsdóttir 3/5 stoðsendingar, Björg Guðrún Einarsdóttir 3.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×