Íslenski boltinn

Byrjunarlið FH ekki skilað einu marki

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
62 mínútur. Markatala FH-liðsins með Atla Viðar Björnsson inni á vellinum i í sumar er 5-0.
62 mínútur. Markatala FH-liðsins með Atla Viðar Björnsson inni á vellinum i í sumar er 5-0. vísir/ernir
Íslandsmeistaraefnin í FH litu ekki vel út í 2-0 tapi á móti Val á Vodafone-vellinum á Hlíðarenda á sunnudaginn og FH-ingar gengu þar stiga- og markalausir af velli í fyrsta sinn í þrjú ár.

Varamennirnir áttu góða innkomu í leikina sem FH-liðið vann í 1. og 2. umferð en í öllum þremur leikjunum hefur verið lítið að frétta á meðan allir ellefu leikmenn byrjunarliðsins hafa verið á vellinum. Heimir hefur samt ekki breytt byrjunarliðinu sínu í fyrstu þremur leikjunum fyrir utan það að setja Brynjar Ásgeir Guðmundsson inn fyrir Jonathan Hendrickx sem meiddist illa á ökkla í fyrsta leik.

Í fyrstu tveimur leikjunum skoraði FH ekki mörkin fyrr en að Heimir sendi þá Atla Viðar Björnsson og Bjarna Þór Viðarsson inn á. Í báðum leikjum þurfti ekki að bíða lengi eftir fyrsta markinu og FH vann þær 43 mínútur sem þeir spiluðu á móti KR og Keflavík með markatölunni 5-0.

Heimir breytti hins vegar ekki byrjunarliðinu sínu fyrir leikinn á móti Val en sendi aftur á móti þá félaga Atla Viðar og Bjarna inn á hvorn í lagi. Bjarni Þór kom þannig inn á 55. mínútu í stöðunni 0-0 og Atli Viðar ekki fyrr en sextán mínútum síðar þegar staðan var orðin 2-0 fyrir Valsmenn.

Eftir þrjá leiki er byrjunarlið FH því búið að spila í samtals 189 mínútur án þess að skila einu einasta marki. Markatala liðsins fram að fyrstu skiptingu í þessum þremur leikjum er meira að segja í mínus.

Fjórði leikur FH er á móti nýliðum ÍA í kvöld og þá er að sjá hvort Heimir þrjóskist áfram við og stilli upp sama liði eða hvort að hann hvort að hann geri einhverjar breytingar.

Fyrstu þrír leikir FH:

1. umferð á móti KR

Fyrsta skipting á 72. mínútu

Byrjunarliðið: -1 (0-1)

Eftir fyrstu breytingu: +3 (3-0)

2. umferð á móti Keflavík

Fyrsta skipting á 65. mínútu

Byrjunarliðið: 0 (0-0)

Eftir fyrstu breytingu: +2 (2-0)

3. umferð á móti Val

Fyrsta skipting á 55. mínútu

Byrjunarliðið: 0 (0-0)

Eftir fyrstu breytingu: -2 (0-2)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×