Skoðun

Svar við vinsamlegri ábendingu

Hjálmar Sveinsson skrifar
Ágæti Sigurður Oddsson. Þakka þér vinsamlega ábendingu í blaðinu í gær. Ég á reyndar erfitt með að skilja af hverju þú kallar fyrirhugaðar framkvæmdir við Grensásveg sunnanverðan skemmdarverk. Þær fela í sér að fjórum akreinum fyrir bílaumferð verður fækkað í tvær og plássið sem skapast í þessu breiða göturými verður notað til að endurnýja og breikka gangstéttir og leggja upphækkaða hjólastíga beggja vegna. Þetta er gert til að skapa meira svigrúm fyrir fótgangandi vegfarendur og hjólandi og til að hægja svolítið á bílaumferðinni. Mælingar sýna að hún er alltof hröð. Iðulega milli 50 og 60 km, jafnvel upp í 72.

Framkvæmdin mun ekki minnka bílaafkastagetu götunnar. Sólarhringsumferð á Grensásvegi er um 10.000 bílar á sólarhring, það er langt undir viðmiðum sem umferðarverkfræðingar nota til að meta hvort bílagötur eigi að vera fjórar akreinar eða tvær.

Umferðarspár til næstu 30 ára sýna að umferðin við Grensásveg mun aldrei ná þeim mörkum, eða 20.000 bílum á sólarhring.

Ef áhyggjur þínar snúast um að þetta muni hægja á bílaumferðinni, bendi ég á að banaslysum á gangandi vegfarendum hefur fækkað mikið síðastliðin 15 ár í Reykjavík. Ástæðuna má fyrst og fremst rekja til þess að tekist hefur að hægja á bílaumferðinni, ekki síst með því að lækka hámarkshraðann í 30 km á fjölda gatna. Það er nefnilega hraðinn sem drepur. Ef keyrt er á gangandi vegfarenda á 50 km hraða eru 80% líkur á að hann deyi. Ef keyrt er á hann á 30 km eru 80% líkur á að hann lifi af.

Í sérstökum kafla um Bústaði-Háaleiti í nýju aðalskipulagi borgarinnar er lögð áhersla á að draga úr neikvæðum áhrifum mikillar og hraðrar bílaumferðir í gegnum borgarhlutann. Sú áhersla er komin til vegna samtals við íbúa á fjölmörgum fundum undanfarin ár.

Fyrir allmörgum árum var Skeiðarvogi breytt úr fjögurra akreina götu í tveggja akreina til að hægja á bílaumferðinni og gera götuna öruggari fyrir gangandi vegfarendur. Þá var líka talað um skemmdarverk í blöðunum. Í dag held ég að engum detti í huga að gera Skeiðarvoginn aftur að fjögurra akreina götu.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×