Strákarnir svöruðu fyrir sig í Höllinni

Ísland heldur því uppteknum hætti frá síðustu árum með því að vinna síðasta heimaleikinn í lokaundirbúningi sínum fyrir stórmót.
Það var mikil barátta í leiknum þó svo að þetta hafi verið æfingaleikur og Dagur Sigurðsson, þjálfari Þýskalands, ætlaði sér vitaskuld að fara af landi brott með tvo sigra í farteskinu.
Framliggjandi 6-0 vörn Íslands hélt þó vel lengst af í leiknum og þá fylgdi markvarslan og hraðaupphlaupin í gær. Sóknarleikurinn var svo betri og munaði miklu um innkomu Sigurbergs Sveinssonar á vinstri vænginn.
„Ég er ánægður með hversu fljótt við erum að ná okkar 6-0 vörn í gang því venjulega tekur það tíma. Þetta hefur verið okkar aðaláhersla í undirbúningnum og menn virðast vera í fínu standi,“ segir Aron sem hrósaði einnig sóknarleiknum.
„Það var framför í honum – meiri agi og við fáum vinstri vænginn aðeins í gang. Við fækkum mistökum í hraðaupphlaupum sem gerði það að verkum að við unnum leikinn.“
Fyrri hálfleikur byrjaði vel, rétt eins og í fyrrakvöld, og strákarnir gáfu tóninn með sterkri 6-0 vörn og fínni frammistöðu Arons Rafns Eðvarðssonar, sem fékk tækifæri í byrjunarliðinu að þessu sinni.
Sigurbergur kom inn í stöðu vinstri skyttunnar af ágætum krafti og bjó til fyrsta mark leiksins fyrir Kára Kristján Kristjánsson, sem fékk einnig sénsinn í gær.
Eftir því sem að Aron byrjaði að skipta varamönnunum inn á fór að bera á brestum í sóknarleiknum og við það voru aðrir þættir í leik íslenska liðsins fljótir að bregðast sömuleiðis. Þjóðverjar komust á mikinn sprett undir lok fyrri hálfleiksins en strákarnir náðu aðeins að rétta úr kútnum og jöfnuðu í lok hans, 12-12.
Íslendingar mættu ákveðnir til leiks í þeim síðari, náðu frumkvæðinu og héldu því allt til loka þó svo að það hafi stundum staðið tæpt. Varnarleikurinn var áfram góður og sóknarleikurinn betri en í fyrri leiknum, sem sást einna best á því að Sigurbergur var gríðarlega mikilvægur á lokasprettinum og skapaði mikla ógn af vinstri vængnum.
„Sigrar í æfingaleikjum færa manni ákveðna ró og tiltrú á liðið – sem er mikilvægt,“ segir Aron. „En menn verða samt að leyfa sér að prófa ákveðna hluti enda er HM langt mót og maður þarf að hafa hlutina á hreinu.“
Hann segir íslenska liðið hafa sýnt meiri breidd í gær en í fyrri leiknum sem sé jákvætt. „Nú þurfum við að byggja ofan á þetta í næstu þremur æfingaleikjum og vonandi fáum við Aron [Pálmarsson] inn sem myndi styrkja okkur enn frekar.“
Strákarnir halda utan til Svíþjóðar á fimmtudag og spila þar við heimamenn á föstudag. Við taka svo leikir gegn Dönum og Slóvenum í Danmörku um helgina.
Tengdar fréttir

Umfjöllun, viðtöl og myndir: Ísland - Þýskaland 25-24 | Strákarnir kvöddu með sigri
Flott frammistaða íslensku strákanna og mikil framför frá því í gær.

Alexander: Ég varð reiður í dag
"Ég er ágætur. Ég fékk nokkra daga í frí eftir erfiða fjóra mánuði í Þýskalandi. Ég er í góðu standi,“ sagði Alexander Petersson sem átti aftur góðan leik gegn Þýskalandi í kvöld þó gamlir axlardraugar hafi gert vart við sig í kvöld.

Sigurbergur: Var afslappaðari í kvöld
"Mér leið betur í dag en í gær. Það þurfti einn leik til að hrista úr sér jólin og áramótin,“ sagði Sigurbergur Sveinsson sem átti góðan leik fyrir Ísland í kvöld.

Bjarki Már: Mátti búast við vörninni sterkri
"Það er mikill léttir að hafa unnið hérna þó þetta skipti í rauninni engu máli. Það er alltaf gaman að vinna,“ sagði Bjarki Már Gunnarsson sem lék allan leikinn í vörn íslenska liðsins.

Aron eykur við sig á æfingu á morgun
Landsliðsþjálfarinn segir að það sé bara einn dagur tekinn fyrir í einu í tilfelli Arons Pálmarssonar.

Aron: Greinilegar framfarir
Landsliðsþjálfarinn ánægður með sigurinn á Þýskalandi og frammistöðu leikmanna Íslands.