Enski boltinn

Messan: Jamie Vardy eins og Gary Martin

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leicester City er á toppnum í ensku úrvalsdeildinni og Hjörvar Hafliðason og félagar fóru yfir leik Leicester-liðsins í Messunni í gær. Þeir ræddu líka um Jamie Vardy og þar kom KR-ingurinn Gary Martin við sögu.

Gestir Hjörvars í Messunni voru þeir Arnar Gunnlaugsson og Jóhannes Karl Guðjónsson sem báðir léku á sínum tíma í ensku úrvalsdeildinni.

Umræðuefnið var frammistaða Leicester City og 3-2 sigur liðsins á móti Everton á Goodison Park á laugardaginn var.

Jamie Vardy skoraði ekki í leiknum en fiskaði víti sem gaf mark og átti síðan stoðsendingu á Shinji Okazaki í síðasta markinu.

„Hann hefur yfirsýn og er alls ekki markagráðugur heldur," sagði Arnar Gunnlaugsson um Jamie Vardy.

„Þetta er frábært dæmi um leik Leicester-liðsins á þessu tímabili. Everton á innkast en leikmenn Leicester er mjög ákveðnir og grimmir í að vinna boltann aftur. Þeir vinna hann hátt á vellinum og þá er stutt í mark andstæðinganna," sagði Jóhannes Karl Guðjónsson.

Hjörvar Hafliðason segir Jamie Vardy gott dæmi um leikmann sem var ótrúlega öflugur í fótbolta en vantaði hausinn. Allt í einu fóru hlutirnir að detta fyrir hann.

„Það eru ekki nema fjögur ár síðan að Jamie Vardy var á netinu rífandi kjaft," sagði Hjörvar og kom með dæmi sem sjá má í myndbandinu sem er í spilaranum fyrir ofan.

„Þetta er í anda þess sem við sjáum í Gary Martin. Þar er strákur frá Norður-Englandi sem kemur til Íslands og fer oft bara í tölvuna þegar hann verður ósáttur," sagði Hjövar.

Það er hægt að sjá allt spjall strákanna um Jamie Vardy og Leicester City í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×