Körfubolti

Margrét Rósa ein besta þriggja stiga skyttan í bandaríska háskólaboltanum

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Margrét Rósa í leik með íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í ár.
Margrét Rósa í leik með íslenska landsliðinu á Smáþjóðaleikunum í ár. vísir/stefán
Landsliðskonan Margrét Rósa Hálfdanardóttir er að gera góða hluti með körfuboltaliði Canisius háskólans í Buffalo.

Margrét, sem er á sínu öðru ári hjá Canisius, er í stóru hlutverki hjá liðinu en hún spilar 28,9 mínútur og skorar 10,6 stig að meðaltali í leik, flest allra í liði Canisius.

Það er umtalsverð bæting frá því í fyrra þegar Margrét, sem er uppalin Haukakona, lék 14,6 mínútur að meðaltali í leik og skoraði 3,7 stig.

Það sem meira er, þá er Margrét með frábæra nýtingu í þriggja stiga skotum á tímabilinu en 20 af 40 skotum hennar fyrir utan þriggja stiga línuna hafa ratað rétta leið.

Það gerir skotnýtingu upp á 50% en Margrét er í 10. sæti yfir þá leikmenn sem eru með bestu þriggja stiga skotnýtinguna í NCAA-deildinni vestanhafs.

Canisius hefur unnið sjö af 10 leikjum sínum í vetur og er í efsta sæti MAAC-riðilsins.

Með liðinu leikur önnur íslensk landsliðskona, Sara Rún Hinriksdóttir, sem er á sínu fyrsta ári hjá Canisius. Sara er með 4,9 stig og 2,4 fráköst að meðaltali í leik í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×