Íslenski boltinn

Formaður Fylkis: ÍBV ræddi við samningsbundinn leikmann okkar

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nafnarnir hjá Fylki. Ásgeir Börkur Ásgeirsson fyrirliði og Ásgeir Ásgeirsson formaður knattspyrnudeildar.
Nafnarnir hjá Fylki. Ásgeir Börkur Ásgeirsson fyrirliði og Ásgeir Ásgeirsson formaður knattspyrnudeildar. Vísir
Ásgeir Ásgeirsson, formaður knattspyrnudeildar Fylkis, segir að ÍBV hafi í sumar rætt við samningsbundinn leikmann kvennaliðs Fylkis án leyfis. Slíkt er ólöglegt samkvæmt reglum Knattspyrnusambands Íslands.

Eins og áður hefur komið fram hyggst ÍBV kæra Fylki fyrir að ræða við Jose Enrique, sem er kallaður Sito, framherja ÍBV, á meðan það var enn óleyfilegt. Fylkismenn neita að hafa gert nokkuð rangt en Eyjamenn segjast vera með sannanir um annað.

Ásgeir sagði við Vísi í dag að hann stæði við orð sín í þessu máli og ítrekaði að hann hefði ekki haft rangt við.

Öðrum félögum er ekki heimilt að ræða við leikmenn sem eru að renna út á samningi fyrr en 16. október ár hvert. Ásgeir segir að Fylkir hafi ekki rætt við Sito fyrr en þá og nú liggur á borðinu samningur við spænska framherjann.

Sjá einnig: Samningur við Sito á borðinu

„Við höfðum ekkert rangt við og stöndum við allt það sem hefur verið sagt,“ sagði Ásgeir í samtali við Vísi í dag. „Það skýtur líka skökku við að sömu menn sem voru að hræra í leikmanni í meistaraflokki kvenna hjá okkur í sumar séu nú að tala um hversu heiðarlegir þeir eru.“

„Við erum með það staðfest [að ÍBV ræddi við samningsbundinn leikmann Fylkis],“ sagði Ásgeir sem segist verða almennt var við að á Íslandi tíðkist að rætt sé við leikmenn fyrir 16. október.

„Við höfum orðið var við það undanfarinn hálfa mánuð eða svo. Það hefur verið haft samband við fullt af leikmönnum. Svona er þetta bara og mun ekki breytast fyrr en reglunum verður breytt.“

Í Evrópu er liðum heimilt að ræða við leikmenn hálfu ári áður en samningur þeirra rennur út.

„Það er mjög furðulegt að erlend lið geti haft samband við leikmenn á Íslandi mörgum mánuðum á undan íslenskum félögum. Kerfið er brenglað.“

„En það breytir því ekki að það eru ákveðnar reglur í gangi og þær ber að virða.“


Tengdar fréttir

Formaður ÍBV: Erum með sannanir í málinu

ÍBV er harðákveðið í því að kæra Fylki fyrir að hafa rætt ólöglega við framherjann Jose Sito. Það sem meira er þá halda Eyjamenn því fram að Fylkir hafi samið við leikmanninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×