Íslenski boltinn

Hilmar Árni genginn í raðir Stjörnunnar

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hilmar Árni Halldórsson mættur í Garðabæinn.
Hilmar Árni Halldórsson mættur í Garðabæinn. mynd/stjarnan
Stjörnumenn halda áfram að styrkja lið sitt fyrir átökin í Pepsi-deild karla næsta sumar. Hilmar Árni Halldórsson er genginn í raðir Garðabæjarliðsins, en þetta kemur fram á Facebook-síðu Silfurskeiðarinnar.

Hilmar Árni kemur til Stjörnunnar frá Leikni þar sem hann hefur spilað allan sinn ferli. Hann skrifaði undir þriggja ára samning við Stjörnumenn.

Þessi öflugi miðjumaður var kosinn besti leikmaður 1. deildarinnar 2014 þegar Leiknir komst í fyrsta sinn upp í Pepsi-deildina og hann sló svo í gegn í sumar með nýliðunum sem á endanum féll niður um deild.

Hilmar Árni var lang besti leikmaður Leiknis og skoraði fjögur mörk af miðjunni auk þess sem hann lagði upp önnur átta. Hann var næst stoðsendingahæstur í deildinni á eftir Kristni Jónssyni.

Hilmar er annar leikmaðurinn sem Stjarnan fær til sín í haust, en Grétar Sigfinnur Sigurðarson gekk í raðir liðsins á dögunum frá KR.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×